Skip to main content
18. maí 2016

Samstarf um kennslubók fyrir stærðfræðikennara

""

Ný kennslubók fyrir stærðfræðikennara á bæði ensku og slóvakísku er meðal afraksturs samstarfsverkefnis sem fulltrúar Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Háskólans í Björgvin í Noregi og Háskólans í Nitra í Slóvakíu hafa unnið að.

Samstarfsverkefnið hefur staðið yfir undanfarið ár og lauk nýverið. Það bar yfirskriftina „Improving Quality of Higher Education Based on Development of Multilateral Institutional Cooperation“. Efnt var til verkefnisins að frumkvæði Háskólans í Nitra sem hlaut styrk úr uppbyggingarsjóði EES til þess.

Meginmarkmið verkefnisins var að efla stærðfræðikennaramenntun í skólunum þremur og að byggja þar m.a. á því samstarfi sem myndast hafði milli skólanna. Enn fremur var ætlunin með verkefninu að kortleggja möguleika á frekari samstarfi skólanna á sviði menntunar og rannsókna og á vettvangi stjórnsýslu.

Freyja Hreinsdóttir, dósent í stærðfræði og stærðfræðimenntun við Kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, hafði forystu um samstarfsverkefnið fyrir hönd háskólans en hún hefur í nokkurn tíma átt í samstarfi við fræðimenn við stærðfræðideild Háskólans í Nitra og Stærðfræðistofnun Háskólans í Björgvin. Afurð þessa samstarfs Freyju og félaga er ný kennslubók sem ætluð er verðandi stærðfræðikennurum. Í bókinni er lögð áhersla á rannsóknarnám (Inquired Based Learning) og notkun tölvutækni við stærðfræðikennslu. Bókin er hugsuð fyrir alþjóðamarkað og er gefin út á bæði ensku og slóvakísku en titill hennar á ensku er Staircase to Even More Interesting Mathematics Teaching. 

Auk þess að vinna að bókunum stóðu aðstandendur verkefnisins fyrir sameiginlegum námskeiðum og ráðstefnum fyrir bæði doktorsnema og starfandi stærðfræðikennara. 

Freyja Hreinsdóttir dósent, sem hér er lengst til hægri, fagnar útgáfu kennslubókarinnar á táknrænan hátt með samstarfskonum sínum, Sonu Ceretkovu frá Háskólanum í Nitra og Mette Andresen frá Stærðfræðistofnun Háskólans í Björgvin.
Kennslubók í stærðfræði
Freyja Hreinsdóttir dósent, sem hér er lengst til hægri, fagnar útgáfu kennslubókarinnar á táknrænan hátt með samstarfskonum sínum, Sonu Ceretkovu frá Háskólanum í Nitra og Mette Andresen frá Stærðfræðistofnun Háskólans í Björgvin.
Kennslubók í stærðfræði