Skip to main content
12. október 2015

Risaristilskoðun í boði á Háskólatorgi

„Um einn af hverjum tuttugu greinist með ristilkrabbamein á lífsleiðinni. Tíðni ristilkrabbameins hefur verið að aukast undanfarna áratugi og það er líklegt að umhverfi okkar eigi þar í hlut,“ segir Lára G. Sigurðardóttir, læknir, doktor í lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands og fræðslustjóri Krabbameinsfélags Íslands. Háskóli Íslands  og Krabbameinsfélagið taka höndum saman nú í október til að vekja athygli á þessum alvarlega sjúkdómi.

Krabbameinsfélagið hefur undanfarin fimmtán ár staðið fyrir árvekni- og fjáröflunarátakinu Bleika slaufan í október þar sem áhersla er lögð á baráttu við krabbamein hjá konum. Á þessu ári hefur félagið lagt áherslu á fræðslu og forvarnir í tengslum við ristilkrabbamein og er Bleika slaufan lokahnykkurinn í því átaki. Til að vekja athygli á átakinu og til að auka skilning á mikilvægi forvarna gegn ristilkrabbameini hefur uppblásinn risaristill verið fluttur inn til landsins. Honum hefur verið komið upp á Háskólatorgi þar sem hann verður dagana 9. – 14. október en þar er bæði hægt að sjá og lesa sér til um hvernig krabbamein í ristli þróast.

Þriðja algengasta krabbameinið

Ristilkrabbamein er þriðja algengasta krabbameinið hér á landi. Árlega greinast um 135 mein í ristli og þá látast 52 einstaklingar af völdum ristilkrabbameins ár hvert, eða að meðaltali einn í hverri viku.

Aðspurð segir Lára að rannsóknir sýni að lífshættir fólks hafi áhrif við þróun þessa meins. „Mikil neysla á rauðu kjöti, unnum kjötvörum og áfengi eykur líkur á að fá sjúkdóminn. Sömuleiðis auka offita, kyrrseta og reykingar líkur á að greinast með sjúkdóminn. Það er samt alltaf þannig, eins og með öll krabbamein, að fólk sem lifir fullkomlega heilbrigðu lífi getur fengið sjúkdóminn þannig að þegar maður talar um aukna áhættu þá er það leikur að líkindareikningi. Fjölskyldusaga hefur einnig áhrif og þeir sem eiga náinn ættingja sem greinst hefur með ristilkrabbamein eru í aukinni áhættu. Síðan eru bólgusjúkdómar í görn einnig áhættuþáttur,“ segir hún. 

Auknar rannsóknir á sjúkdómnum og betri forvarnir hafa hins vegar bætt lífshorfur þeirra sem greinast með ristilkrabbamein verulega á síðustu árum og áratugum. „Um 68% kvenna og 66% karla eru nú á lífi fimm árum frá greiningu. Fimmtíu árum áður voru einungis 31% kvenna og 40% karla á lífi fimm árum frá greiningu. Eftir því sem sjúkdómurinn greinist á lægri stigum því meiri eru lífslíkurnar,“ segir Lára og bætir við að með skipulegri hópleit megi greina sjúkdóminn í flestum tilfellum á byrjunarstigi eða forstigi áður en sjúkdómurinn myndist. „Undanfarin ár hefur nokkuð stór hluti fólks í meðaláhættu að fá sjúkdóminn, þ.e. fólk á aldrinum 50 til 75 ára, látið skima sig fyrir sjúkdómnum. Ef þessi óformlega skimun skilar árangri þá mætti búast við enn frekari lækkun á tíðni sjúkdómsins og bættum lífshorfum á næstu árum því það gildir með þennan sjúkdóm eins og önnur krabbamein, að því fyrr sem meinið greinist, því meiri líkur eru á lækningu.“ 

Mikilvægt að huga að einkennum ristilkrabbameins

Krabbameinsfélagið vinnur nú drög að undirbúningi hópleitar að ristilkrabbameini og leiðir dr. Sunna Guðlaugsdóttir meltingarlæknir þá vinnu í samstarfi við landlækni og að beiðni velferðarráðuneytisins. „Á meðan engin skipuleg hópleit er að ristilkrabbameini er fólki á aldrinum 50 til 75 ára ráðlagt að ræða við sinn lækni um leit að ristilkrabbameini. Tvær aðferðir eru einkum algengastar: að leita að duldu blóði í hægðum eða ristilspeglun. Hægðaprófin sem eru á markaði hérlendis hafa ekki reynst nægilega árangursrík og því hafa margir kosið að fara beint í ristilspeglun. Góðar vonir eru bundnar við nýtt hægðapróf sem er mun árangursríkari en þau gömlu en þau eru enn ekki komin á markað hérlendis,“ segir Lára sem þekkir afar vel til krabbameinsrannsókna og  lauk nýverið doktorsprófi í lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands þar sem hún kannaði tengsl  röskunar á lífklukku og þróunar blöðruhálskirtilskrabbameins.

Að sögn Láru hefur Krabbameinsfélagið sjálft ekki aðstöðu til að skima fyrir ristilkrabbameini og því verður sá sem vill láta leita að ristilkrabbameini að ræða við lækni - heimilislækni eða meltingarfæralækni. „Við höfum einnig lagt áherslu á mikilvægi þess að vera meðvitaður um einkenni, taka ábyrgð á eigin heilsu og ræða við lækni eftir atvikum. Ef þú átt náinn ættingja sem hefur greinst með ristilkrabbamein þá gæti verið ástæða til að hefja leit að ristilkrabbameini hjá þér fyrr en við fimmtugt. Maskína gerði nýlega könnun fyrir okkur og samkvæmt þeirri könnun eru Íslendingar nokkuð vel upplýstir um ristilkrabbamein. Fyrir þá sem vilja leita sér upplýsinga um ristilkrabbamein þá mæli ég með að skoða vefsíðuna bleikaslaufan.is eða hringja til okkar á viðtalstímum,“ segir Lára að lokum.

Við þetta má bæta að Háskóli Íslands hefur til sölu bleika boli í Bóksölu stúdenta á Háskólatorgi og rennur allur ágóði af sölu þeirra til styrktar Krabbameinsfélaginu.

Lára G. Sigurðardóttir
Lára G. Sigurðardóttir