Skip to main content
5. febrúar 2024

Raunfærnimat í leikskólakennarafræði til fyrirmyndar í öðrum greinum 

Raunfærnimat í leikskólakennarafræði til fyrirmyndar í öðrum greinum  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Raunfærnimat sem þróað hefur verið á undanförnum árum við námsbraut í leikskólakennarafræði verður haft til grundvallar við frekari þróun slíks mats á háskólastigi, bæði innan HÍ og annarra skóla. Styrkur fékk til verkefnisins úr sjóðnum Samstarf háskóla á dögunum. Anna Magnea Hreinsdóttir lektor og Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir dósent, sem báðar starfa við námsbraut í leikskólakennarafræði við Deild kennslu og menntunarfræða, eru matsaðilar og sérfræðingar í raunfærnimati og verður horft til vinnu þeirra til þess að gera matið sem allra best úr garði.Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið veitti 40 milljóna króna styrk úr áðurnefndum sjóði til þróunar raunfærnimats innan háskóla landsins. Líkt og fram kemur í frétt á vef ráðuneytisins er „markmið verkefnisins að þróa og innleiða raunfærnimat til styttingar náms við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Háskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Hver skóli velur námsleiðir til að innleiða raunfærnimat við t.d. kennaranám, iðn- og tæknifræði, fatahönnun og lögreglufræði. Samstarfshópurinn mótar matsferli sem verður prufukeyrt, metið og innleitt. Niðurstaðan verður sameiginlegt matsferli sem mun nýtast öllum háskólum landsins og efla mannauð og hæfni í íslensku atvinnulífi.” Það er því forvitnilegt að fræðast frekar um þetta nýstárlega þróunarverkefni raunfærnimats í leikskólakennarafræði á háskólastigi. 

Hvað er raunfærnimat? 

„Raunfærnimat er skilgreint sem mat á þeirri þekkingu og hæfni sem einstaklingur hefur aflað sér í formlegu og óformlegu námi á vinnustað eða í frítíma. Í raunfærnimati fá nemendur tækifæri til að koma þeirri þekkingu sem þeir hafa öðlast í lífi og starfi til skila, formgera menntun sína og fá hana metna til háskólaeininga,“ segir Ingibjörg Ósk.  

Þróunarverkefni um raunfærnimat á háskólastigi til styttingar náms í grunnnámi í leikskólakennarafræði var sett var á laggirnar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands árið 2021. Kveikjan að verkefninu voru tilmæli ráðherraráðs Evrópusambandsins um að innleiða raunfærnimat í alla háskóla í Evrópu fyrir árið 2018. Tekur matið mið af hæfniviðmiðum námskeiða og fá nemendur ECTS-einingar fyrir þau námskeið sem þeir teljast standast í raunfærnimati. Matið byggist ekki eingöngu á þeirri tímavinnu sem liggur að baki einingunum heldur einnig á eðli þekkingarinnar með hliðsjón af hæfniviðmiðum námskeiða og verkefnavinnu.  

Vinnuhópur var settur á laggirnar innan Háskóla Íslands sem skilaði af sér skýrslu árið 2017 og lagði til að verkfræði, tölvunarfræði og kennaranám væri vel til þess fallið að innleiða raunfærnimat. Rökin fyrir því voru að margir af þeim nemendum sem stunda nám í þessum greinum hafa töluverða starfsreynslu. Menntavísindasvið reið á vaðið og setti á laggirnar stýrihóp sem í sitja fulltrúar frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Kennarasambandi Íslands, Kennslusviði háskólans og stjórnsýslu og námsleiðinni í leikskólakennarafræði við Menntavísindasvið. 

Hvernig fer raunfærnimat fram?  

„Umsækjendur um raunfærnimat hefja ferlið á að fylla út skimunarlista þar sem lagt er mat á hvort umsækjandi eigi erindi í slíkt mat. Umsækjendur þurfa einnig að senda inn ferilskrá. Þeim sem uppfylla skilyrðin er boðið að senda inn rafræna umsókn um raunfærnimat og úr þeim hópi eru valdir þeir umsækjendur sem halda áfram í næsta skref,“ útskýrir Anna Magnea.  

Að því loknu sitja þátttakendur tvo fundi með náms- og starfsráðgjöfum og matsaðilum. „Á fyrri fundinum er farið í færniskráningu og þátttakendur þurfa að afla gagna til staðfestingar á færni sinni. Á þeim síðari er unnið í sjálfsmatslistum sem liggja til grundvallar þegar ákveðið er hvaða námskeið henta til raunfærnimats hjá hverjum og einum. Þegar komið er í ljós hvaða námskeið á að meta hjá hverjum og einum fer fram matsviðtal hjá matsaðilum deildarinnar þar sem raunfærni er borin saman við hæfniviðmið námskeiða. Að því loknu er tekin afstaða til hvaða námskeið hver og einn fær metið. Það eða þau námskeið sem þátttakandi stóðst mat í eru skráð í Uglu. Ekki er gefin einkunn fyrir námskeiðin heldur afgreitt sem metið, líkt og mat á fyrra námi,“ segir Anna Magnea enn fremur. 

Þróa matsgögn og aðferðir til raunfærnimats 

Anna Magnea og Ingibjörg Ósk stóðu að rannsókn um framkvæmd raunfærnimats og var gagna aflað í rýnihópaviðtölum og spurningakönnun lögð fyrir nemendur sem fóru í matssamtal. Í grein þeirra sem birtist í tímaritinu Netlu er sjónum beint að þeim matsgögnum og aðferðum sem stuðst var við í matssamtölunum og upplifun nemenda af þeim. „Markmiðið var að varpa ljósi á inntak matssamtala í raunfærnimati í grunnnámi í leikskólakennarafræði og að kanna upplifun nemenda af samtölunum. Tilgangurinn var að þróa matsgögn og aðferðir sem gagnast vel til að meta þá þekkingu, hæfni og leikni sem nemendur öðlast í starfi út frá hæfniviðmiðum námskeiða í grunnnámi í leikskólakennarafræði,“ segir Ingibjörg Ósk. 

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að fjölbreytt matsgögn og aðferðir í matssamtali komu sér vel fyrir þá nemendur sem tóku þátt í þróunarverkefninu um raunfærnimat.  

„Þeim fannst gott að fara yfir náms- og starfsferil sinn í upphafi viðtalsins og töldu verkefnin góða leið til að koma reynslu sinni af leikskólastarfi á framfæri. Matsaðilar telja mikilvægt að stuðst sé við matsgögn sem nýtt eru á vettvangi, t.d. skipulag tónlistarstundar eða undirbúning foreldraviðtals, og tengjast hæfniviðmiðum og innihaldi námskeiða og að frásögn nemenda sé þannig studd gögnum, ekki eingöngu töluðu máli,“ segir Anna Magnea.  

Raunfærnimat ekki afsláttur á námskröfum 

Mikil vinna var lögð í að fara í gegnum hæfniviðmið hvers námskeiðs og gera þau mælanleg, sem er einkar mikilvægt þegar mat á raunfærni er annars vegar. Ekki er síður mikilvægt að setja hæfniviðmiðin fram á skýran og skiljanlegan hátt fyrir þátttakendur. Fagmennska er hér viðhöfð enda er raunfærnimat ekki afsláttur á námskröfum heldur byggist það á sömu hæfniviðmiðum og stuðst er við í námskeiðunum almennt. Með þessu móti er færnin sett í fyrsta sætið án tillits til þess hvar eða hvernig hennar er aflað. Matsaðilar komu einnig auga á að raunfærnimatsferlið drægi fram hversu mikil áhrif og ábyrgð stjórnendur og leikskólakennarar hafa á starfsþróun þeirra sem starfa í leikskólum og á þróun þekkingar og færni fólks í starfi. Mikil tækifæri eru fólgin í að hvetja leikskólastjórnendur til að stuðla að því að leikskólakennarar ræði um starfið og þau fræði sem það byggist á við ófaglært samstarfsfólk og deili með því kunnáttu sinni í formi handleiðslu og í samtali.  

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, tók þróunarverkefninu opnum örmum og leiddi stýrihóp raunfærnimatsins fyrsta árið. „Öll þessi frábæra vinna innan leikskólafræðinnar og allra þeirra sem komu að þróunarverkefninu mun nýtast gríðarlega vel við frekari innleiðingu raunfærnimats á háskólastiginu. Það skiptir miklu máli að sú þekking og reynsla sem fólk öðlast með óformlegum hætti í starfi sé viðurkennd innan háskóla. Það er mikil viðurkenning að stjórnvöld skuli hafa veitt styrk til áframhaldandi þróunar,“ segir Kolbrún að lokum og nefnir að verkefnið hafi verið leitt fagmannlega af þeim Önnu Magneu, Ingibjörgu Ósk auk Ínu Daggar Eyþórsdóttur, verkefnastjóra Kennslusviðs, og Láru Hreinsdóttur, náms- og starfsráðgjafa við Menntavísindasvið. 

Lesa má greinina á Netlu - Fyrirkomulag og upplifun nemenda af matssamtali í raunfærnimati í leikskólakennarafræði við Háskóla Íslands 

Anna Magnea Hreinsdóttir lektor og Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir dósent, sem báðar starfa við námsbraut í leikskólakennarafræði við Deild kennslu og menntunarfræða við Menntavísindasvið.