Skip to main content
21. febrúar 2017

Rannsóknarverkefni kynnt á Nýsköpunarmóti Álklasans

""

Nýsköpunarmót Álklasans fer fram í fyrsta sinn í Hátíðasal Háskóla Íslands fimmtudaginn 23. febrúar kl. 14.00–16.30. Tilgangur mótsins er að kynna árangur af rannsókna- og þróunarverkefnum og ræða hugmyndir að nýjum samstarfsverkefnum sem fela í sér tækifæri til framþróunar og verðmætasköpunar í áliðnaði. Sérstaklega verður horft til verkefna háskólastúdenta í þessu sambandi.

Að Nýsköpunarmótinu standa Samál, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök iðnaðarins og Álklasinn en þessi samtök og stofnanir eiga öll aðild að Álklasanum.

Klasinn var formlega stofnaður árið 2015 í samstarfi ýmissa fyrirtækja á Íslandi, álveranna þriggja sem hér starfa og rannsókna- og menntastofnana, þar á meðal Háskóla Íslands. Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, er einn þeirra sem taka munu til máls á Nýsköpunarmótinu en hann segir Háskólann hafa ýmislegt fram að færa til samstarfsins. „Við tökum þátt í verkefnum sem snerta rannsóknir tengdum orkufrekum iðnaði og innan háskólans er mikil þekking á efnisfræði og efnisnotkun auk þess fjölmargir sérfræðingar í umhverfismálum geta lagt sitt af mörkum við mat á umhverfisáhrifum í tengslum við iðnaðinn,“ segir Hilmar. 

Nýsköpunarmótið hefst með framsöguerindum fulltrúa Álklasans, háskólasamfélagsins og atvinnulífsins en í kaffihléi stendur til að frumsýna í anddyri Aðalbyggingar nýtt álfarartæki sem hannað hefur verið hér á landi .

Eftir kaffihlé fara fram hraðkynningar á verkefnum og hugmyndum að nýju samstarfi þar sem framsögumenn, sem margir hverjir eru enn í háskólunum eða nýútskrifaðir, hafa þrjár mínútur til umráða hver auk þess sem gefin er mínúta til að svara stuttum fyrirspurnum. 

Hilmar segir aðild að Álklasanum færa með sér ýmis tækifæri fyrir nemendur Háskólans. „Með verkefnagátt Álklasans, sem opnuð verður á Nýsköpunarmótinu, geta nemendur í framhaldsnámi, hvort sem er á meistara- eða doktorsstigi, t.d. fundið sér rannsóknarverkefni og þannig tengst fyrirtækjum innan klasans. Álklasinn opnar um leið atvinnumöguleika fyrir nemendur enda markmið klasans að tengja saman háskóla, rannsóknastofnanir og fyrirtæki í Álklasanum.“

Erindi Hilmars á Nýsköpunarmótinu ber yfirskriftina „Hugvit og ál“ og aðspurður hvað hann muni fjalla um segir Hilmar: „Ég mun m.a. leggja áherslu á að lykillinn að verðmætasköpun, þar sem greitt er meira en kostnaðarverð og föst álagning, er þekking. Með því að leggja saman þekkingu háskólanna og atvinnulífsins er hægt að skapa ný atvinnutækifæri sem gagnast öllu samfélaginu.“

Nánari upplýsingar um dagskrá Nýsköpunarmóts má finna á viðburðavef Háskóla Íslands.

Hilmar Bragi Janusson