Skip to main content
13. nóvember 2015

Rætt um nýjar rannsóknir á dagbókum Kristjáns X

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum stendur fyrir málþingi í Hátíðasal Aðalbyggingar háskólans laugardaginn 14. nóvember þar sem fjallað verður um dagbækur Kristjáns X, síðasta konungs Íslands, og tengsl Íslands og Danmerkur og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Málþingið er haldið í samvinnu við Sagnfræðistofnun og danska sendiráðið á Íslandi. 

Yfirskrift málþingsins er „Viðhorf Kristjáns X til sjálfstæðis Íslands og lýsingar hans á Íslendingum“ og er haldið í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að dönskukennsla hófst við Háskóla Íslands. 

Nýverið sendi Borgþór Kjærnested fræðimaður frá sér bók um dagbækur Kristjáns X en bækurnar höfðu verið lokaðar öllum fram til þessa. Á málþinginu mun Borgþór fjalla um þessar rannsóknir sínar á dagbókum þessa síðasta konungs Íslands og hvaða mynd þær gefa af viðhorfum hans til aukins sjálfstæðis Íslands og kynnum hans af Íslendingum. 

Enn fremur mun Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku og forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, flytja erindi þar sem varpað verður ljósi á viðhorf Íslendinga til danskrar tungu á örlagatímum í samskiptasögu landanna. Bo Lidegaard, ritstjóri á danska stórblaðsins Politiken, er einnig meðal ræðumanna og ber erindi hans yfirskriftina „Kristján X og spurningin um sjálfstæði Íslands“.

Málþingið, sem stendur frá kl. 13 til 15, fer fram á dönsku. Það er öllum opið.  

Kristján tíundi.
Kristján tíundi.