Skip to main content
25. janúar 2016

Össur og Ottobock stofna 200 milljóna rannsóknarsjóð

""

Tvö af fremstu stoðtækjafyrirtækjum heims, Össur hf. og Ottobock, hafa sett á fót rannsóknarsjóð við Háskóla Íslands sem ætlað er að styðja við rannsóknir sem tengjast taugastjórnun á gervilimum. Fyrirtækin leggja samtals rúmlega 200 milljónir króna í sjóðinn á næstu þremur árum.

Þorvaldur Ingvarsson, framkvæmdastjóri rannsókna og þróunar hjá Össuri, Hans Dietl, yfirmaður tækniþróunar hjá Ottobock, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu stofnskrá sjóðsins í Háskóla Íslands í dag. Sjóðurinn ber heitið Rannsóknarsjóður Össurar og Ottobock við Háskóla Íslands. 

Samkvæmt skipulagsskrá sjóðsins er tilgangur hans að fjármagna grunn- og hagnýtar vísindarannsóknir og frumkvöðlaverkefni á sviði háþróaðrar taugastjórnunar á gervilimum. Sjóðurinn er alþjóðlegur samkeppnissjóður og verður opinn bæði vísindamönnum og nemendum sem stunda rannsóknir við háskóla, rannsóknarstofnanir og fyrirtæki um víða veröld. 

Stofnframlag Össurar og Ottobock nemur einni milljón dollara, jafnvirði rúmlega 130 milljónum króna. Auk þess munu fyrirtækin leggja fram 200 þúsund dollara, jafnvirði nærri 80 milljóna króna, í sjóðinn næstu þrjú ár. Samanlagt framlag fyrirtækjanna nemur því rúmum 200 milljónum króna. Áætlað er að fyrsta úthlutun úr sjóðnum fari fram innan eins árs frá stofnun hans og er stjórn sjóðsins heimilt að úthluta öllum tekjum hans á fimm árum frá stofnun sjóðsins. 

Sem fyrr segir eru bæði Össur hf. og Ottobock í hópi fremstu fyrirtækja heims á sviði stoðtækja og stuðningsvara og fjárfesta mikið í rannsóknum og vöruþróun. Össur var stofnað á Íslandi 1971 og höfuðstöðvar þess eru í Reykjavík. Ottobock var aftur á móti stofnað í Þýskalandi árið 1919. Bæði hafa fyrirtækin umfangsmikla starfsemi um allan heim og vilja með stofnun sjóðsins stuðla að þróun framúrskarandi tækni til að auka lífsgæði og hreyfanleika fólks. 

Fjögurra manna stjórn sjóðsins skipa: Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands sem jafnframt verður formaður stjórnar, Kristín Ingólfsdóttir prófessor í lyfjafræði og fyrrverandi rektor háskólans, Þorvaldur Ingvarsson, framkvæmdastjóri rannsókna og þróunar hjá Össuri, og Bernhard Graimann, yfirmaður þverfræðilegra rannsókna og þekkingarstjórnunar hjá Ottobock. Ebba Þóra Hvannberg, prófessor í tölvunarfræði og varaforseti háskólaráðs, tekur sæti varamanns í stjórninni.

Rannsóknarsjóður Össurar og Ottobock er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Frekari upplýsingar um sjóðina er að finna á sjóðavef háskólans.

Þorvaldur Ingvarsson, framkvæmdastjóri rannsókna og þróunar hjá Össuri, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Hans Dietl, yfirmann tækniþróunar hjá Ottobock, undirrita stofnskrá sjóðsins.
Stjórn sjóðsins ásamt rektor og yfirmanni tækniþróunar hjá Ottobock. Fremri röð frá vinstri: Ebba Þóra Hvannberg, Hilmar Bragi Janusson, Bernhard Graimann og Þorvaldur Ingvarsson. Aftari röð frá vinstri: Jón Atli Benediktsson og Hans Dietl.
Þorvaldur Ingvarsson, framkvæmdastjóri rannsókna og þróunar hjá Össuri, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Hans Dietl, yfirmann tækniþróunar hjá Ottobock, undirrita stofnskrá sjóðsins.
Stjórn sjóðsins ásamt rektor og yfirmanni tækniþróunar hjá Ottobock. Fremri röð frá vinstri: Ebba Þóra Hvannberg, Hilmar Bragi Janusson, Bernhard Graimann og Þorvaldur Ingvarsson. Aftari röð frá vinstri: Jón Atli Benediktsson og Hans Dietl.