Skip to main content
12. september 2016

Ólíklegt að hlýnun auki losun CO2 úr straumvötnum

""

Efnaskiptajafnvægi í lækjum og ám er ekki eins viðkvæmt fyrir hlýnun og áður var talið og því er ólíklegt að hlýnun loftslags auki losun koltvíoxíðs (CO2) úr straumvötnum. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar íslenskra og erlendra vísindamanna en þær birtust í dag í vísindaritinu Nature Geoscience.

Lækir og ár eru mikilvæg uppspretta koltvíoxíðslosunar og ræðst losunin að stórum hluta af efnaskiptum milli ljóstillífunar, sem breytir CO2 í lífrænt kolefni, og öndunar, sem breytir lífrænu kolefni í CO2. Kolefnislosun frá ám gæti aukist með hlýnun loftslags óháð ákomu lífræns kolefnis vegna þess að spáð er að orkunotkun lífvera muni aukast með hlýnun og öndun aukist meira en ljóstillífun. Aftur á móti getur aukið lífeðlisfræðilegt koltvíoxíðsmagn hindrað svokallaða ljósöndun (e. photorespiration) með aukinni hlýnun og takmarkað ljóstillífun. Aukin losun koltvíoxíðs hefur alvarlegar afleiðingar fyrir umhverfið enda er koltvíoxíð sú lofttegund sem talin er eigan mestan þátt í hnattrænni hlýnun.

Rannsóknin sem sagt er frá í Nature Geoscience fjallar um hvernig áhrif loftlagshlýnunar á koltvíoxíðslosun úr straumvötnum mildast af frumframleiðslu vatna.  Að rannsókninni kom hópur vísindamanna í Skotlandi, Bandaríkjunum, Noregi og Wales auk tveggja Íslendinga, þeirra Gísla Más Gíslasonar, prófessors í vatnalíffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og Jóns S. Ólafssonar, vatnalíffræðings við Veiðimálastofnun.

Rannsóknirnar fóru fram í straumvötnum á jarðhitasvæðum í Norður-Ameríku, á Íslandi og Kamchatka-skaga í Rússlandi þar sem vatnshiti var á bilinu 4 til 70°C. Alls voru 222 straumvötn af ólíku hitastigi rannsökuð, þar á meðal náttúrulega heitar ár og lækir á Hengilssvæðinu sem segja má að séu náttúruleg tilraunastofa vegna áhrifa jarðhita.

Niðurstöður rannsóknanna sýna að hlýnun auki ekki losun koltvíoxíðs úr lækjum og ám vegna ójafnvægis sem hlýnunin leiðir til milli ljóstillífunar og öndunar. Aftur á móti getur hiti haft áhrif á árlega CO2-losun frá straumvötnum ef öndun lífvera í vistkerfunum er óháð framleiðslu þörunga og plantna. Sömuleiðis getur CO2-losunin aukist með auknu lífrænu kolefni í vötnunum vegna aukinnar framleiðni í þeim. Vísindamennirnir komast því að þeirri meginniðurstöðu að efnaskiptajafnvægi í straumvötnum sé ekki eins viðkvæmt fyrir hlýnun og áður var talið en það skiptir verulegu máli varðandi áhrif hlýnunar á koltvíoxíðslosun úr ám og öðrum straumvötnum.

Gísli Már Gíslason á Hengilssvæðinu
Gísli Már Gíslason á Hengilssvæðinu