Skip to main content
5. mars 2015

Ofbeldi á heimili hlýtur viðurkenningu Hagþenkis

Bókin „Ofbeldi á heimili – Með augum barna“ sem Guðrún Kristinsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, ritstýrði og ritaði ásamt fimm konum, sem tengjast Háskóla Íslands sem nemendur eða starfsmenn, hlaut í dag viðurkenningu Hagþenkis. Þetta eru önnur verðlaunin sem bókin hlýtur á skömmum tíma.

Viðurkenning Hagþenkis, sem er félag höfunda fræðirita og kennslugagna, er veitt árlega fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings sem þykir hafa skarað fram úr. Alls voru tíu bækur, sem komu út á árinu 2014, tilnefndar til verðlaunanna en þar á meðal voru nokkrar bækur eftir núverandi og fyrrverandi kennara við Háskóla Íslands.

Við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í dag var tilkynnt að bókin „Ofbeldi á heimili. – Með augum barna“ hlyti viðurkenninguna að þessu sinni en hún kom út á vegum Háskólaútgáfunnar í fyrra. Sem fyrr segir ritstýrði Guðrún Kristinsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið,  bókinni en auk hennar rituðu þær Ingibjörg H. Harðardóttir, lektor við Menntavísindasvið, Margrét Ólafsdóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið, og Steinunn Gestsdóttir, dósent við Sálfræðideild, kafla í bókinni ásamt þeim Margréti Sveinsdóttur og Nönnu Þ. Andrésdóttir, sem báðar rituðu meistararitgerðir við Háskóla Íslands um ofbeldi á heimilum. Viðurkenning Hagþenkis felst í árituðu heiðursskjali og einnar milljónar króna verðlaunafé.

Í umsögn viðurkenningarráðs Hagþenkis um bókina segir m.a. að höfundarnir takist á við það erfiða verkefni að ræða við óhörðnuð ungmenni um afar viðkvæmt málefni af mikilli ábyrgð og fagmennsku. „Hvar sem drepið er niður í ritinu gætir þess viðhorfs að börn og unglingar séu samfélagslegir borgarar og gerendur í eigin lífi. Að börn séu ekki fórnarlömb sem beri að vorkenna heldur ungt fólk sem sýni af sér seiglu við að lifa af í vondum aðstæðum og verðskuldi að á þau sé hlustað. Þau búi yfir visku og þekkingu sem vert sé að leita eftir og taka mark á.“

Þá sýni bókin áræði og hugrekki höfunda og ritstjóra. „Þær taka kinnroðalaust fram að rannsókn þeirra byggi á femínískum fræðum og grundvallist á þeirri sýn að undirrót heimilisofbeldis sé undirskipun kvenna og barna í feðraveldissamfélagi.“  Verkið sé mikilvægt innlegg í samfélagsumræðuna „og hafa höfundarnir unnið stórvirki í að varpa ljósi á aðstæður, þekkingu og seiglu barna og unglinga sem búa við ofbeldi og búa til farveg fyrir raddir þeirra inn í opinbera umræðu.“

Bókin hefur vakið töluverða athygli að undanförnu og eru þetta önnur verðlaunin sem höfundum hennar hlotnast. Fyrr á árinu fékk bókin Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis.
 

„Ofbeldi á heimili – Með augum barna“