Skip to main content
29. júní 2017

Nýtt rannsóknaverkefni á vegum Rannsóknaseturs um smáríki

""

Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands hlaut nýverið styrk frá Atlantshafsbandalaginu (NATO). Um er að ræða þriggja ára verkefni sem Háskóli Íslands leiðir en þrír aðrir háskólar taka þátt: Háskólinn í Canterbury á Nýja-Sjálandi, Georgetown-háskóli í Bandaríkjunum og Háskólinn í Vilníus í Litháen. 

Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og rannsóknastjóri setursins, fer fyrir verkefninu en verkefnisstjórn þess er hjá Rannsóknasetri um smáríki innan Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.

Verkefninu er ætlað að dýpka skilning á stöðu smárkja í breyttu alþjóðlegu öryggisumhverfi og skoða hvernig þau geta sem best mótað stefnu sína í utanríkis- og öryggismálum. Því betur sem smáríkin geta brugðist við þeim áskorunum sem koma upp, því meira geta þau lagt af mörkum til að stuðla að góðu samstarfi innan NATO og við samstarfsríki bandalagsins. Smáríki sem eru aðilar að NATO verða skoðuð sérstaklega sem og smáríki í Austur-Evrópu, Eyjaálfu, Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku (MENA-svæðinu).

Fyrsta ráðstefnan í tengslum við verkefnið var haldin á Nýja Sjálandi dagana 3.- 4. júní og flutti Baldur Þórhallsson erindi um hvernig smáríki geta brugðist við ytri ógnum. Í erindinu fjallaði hann um samband Íslands og Bandaríkjanna á árunum 2006-2008 og hvað smáríki getur gert til að tryggja öryggi sitt þegar stórveldi yfirgefur það. Næsta ráðstefna, sem verður haldin á vegum verkefnisins, verður í Háskóla Íslands 26. júní 2018. 

Auglýst er eftir umsóknum frá ungum fræðimönnum sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu en umsóknarfrestur rennur út þann 30. júní. 

 

Baldur Þórhallsson