Skip to main content

Nýr veruleiki með öflugu samstarfi HÍ og CCP

18. maí 2017

Vísindamenn og sérfræðingar Háskóla Íslands og CCP hyggjast á næstu árum vinna saman að því að þróa nýjar leiðir til rannsókna, miðlunar, kennslu og nýsköpunar sem m.a. taka mið af hröðum tæknibreytingum samtímans. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum samstarfssamningi sem Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri CCP á Íslandi, undirrituðu 15. maí sl. Samningurinn skapar einnig fjölmörg tækifæri fyrir nemendur á ólíkum fræðasviðum Háskólans.

Samningurinn markar upphaf samstarfs á milli Háskólans og CCP á fjölmörgum sviðum en eins og kunnugt er hyggst CCP flytja skrifstofur sínar í Grósku, nýtt hugmyndahús í landi Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýri. 

Markmiðið með nýjum samstarfssamningi Háskóla Íslands og CCP er að samnýta sérþekkingu, kunnáttu, efnivið og aðstöðu sem báðir aðilar búa yfir og munu vísindamenn og sérfræðingar Háskólans og CCP móta sameiginleg rannsóknar- og þróunarverkefni og sækja fram á alþjóðavettvangi.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, fagnar samningum. „Ég hlakka til að sjá fjölda spennandi verkefna verða til þar sem vísindamenn og nemendur Háskólans geta nýtt þekkingu og tækni CCP, sem er leiðandi fyrirtæki á sviði netleikja, tölvugrafíkur og þróunar sýndarveruleika, og tengt það rannsóknum sínum. Enn fremur opnast alveg ný tækifæri til þverfaglegra rannsókna sem nýtast öllum fræðasviðum skólans, hugvísindum, félagsvísindum, heilbrigðisvísindum, menntavísindum og verkfræði- og náttúruvísindum.“

Sýndarveruleiki og viðbættur veruleiki (e. augmented reality) munu á komandi árum hafa víðtæk samfélagsleg áhrif og t.d. umbylta miðlun efnis, upplifun notenda og framleiðsluháttum. „Þessi tækni opnar nýjar leiðir í rannsóknum og það er metnaður okkar að vísindamenn Háskólans verði leiðandi í að tileinka sér tæknina í rannsóknum sínum og starfi. Við væntum mikils af samstarfinu við CCP og fögnum því að fyrirtækið muni á næstu árum flytja starfsemi sína enn nær okkur og verða hluti af þekkingarþorpi Vísindagarða Háskóla Íslands,“ segir Jón Atli.

„Samstarf CCP og Háskólans hefur verið að aukast mjög á undanförnum árum og ég tel að mikilvægi þessa samstarfs eigi eftir að aukast enn meir á næstunni því áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir í nýsköpun kalla á þverfaglega nálgun og aukna áherslu á þekkingarmiðlun. Háskóli Íslands er því kjörsamstarfsaðili sem getur lagt til mikilvægt fræðilegt innihald og þróað margvísleg ný notkunarsvið fyrir tæknina. Tækni morgundagsins verður til með samvinnu og kröftugri liðsheild háskóla og atvinnulífs,” segir Stefanía Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri CCP á Íslandi.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri CCP á Íslandi, handsala nýjan samsstarfssamning fyrr í vikunni.
Teikning af Grósku, nýju hugmyndahúsi í Vatnsmýri