Skip to main content
29. janúar 2015

Ný bók um hrunið frá sjónarhóli félags- og hugvísinda

Íslenskir og erlendir fræðimenn fjalla um aðdraganda bankahrunsins og eftirköst í greinasafninu „Gambling Debt: Iceland’s Rise and Fall in the Global Economy“ sem nýverið kom út. Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands efnir til hádegisfundar föstudaginn 30. janúar kl. 12-13 í stofu 101 í Odda í tilefni af útgáfu bókarinnar en þar munu nokkrir höfunda bókarinnar kynna þær rannsóknarniðurstöður sem finna má í bókinni og sitja fyrir svörum.

„Gambling Debt“ fjallar um bankahrunið á Íslandi í mun víðara samhengi en gert hefur verið hingað til. Hún hefur m.a. að geyma greinar um notkun víkingaminnis og sagnfræði á tímum útrásarinnar, ábyrgð fræðasamfélagsins, fjölmiðla og stjórnmálamanna í aðdraganda hrunsins, rannsóknir á búsáhaldabyltingunni og uppgangi Besta flokksins ásamt áhrifum efnahagshrunsins á skólastarf og atvinnuhorfur innflytjenda. Ritstjórar bókarinnar eru Gísli Pálsson, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, og E. Paul Durrenberger, prófessor emeritus við Iowa-háskóla.

Á fundinum í Odda þann 30. janúar munu Gísli Pálsson, Guðni Th. Jóhannesson, Vilhjálmur Árnason, Már Wolfgang Mixa, Jón Gunnar Bernburg, Guðný S. Guðbjörnsdóttir og Unnur Dís Skaptadóttir flytja örstutt erindi um einstakar greinar hennar og í lokin verður efnt til umræðna. Fundarstjóri verður Margrét S. Björnsdóttir.

Bókin er seld í Bóksölu stúdenta og á Amazon.com (fyrir Kindle).  Einnig má nálgast hana ókeypis á heimasíðu Háskólaforlagsins  í Colorado: https://upcolorado.com/university-press-of-colorado/item/2041-gambling-debt