Skip to main content
9. maí 2016

Norræn verðlaun fyrir MA-ritgerð í félagsráðgjöf

""

Norrænu samtökin Nordisk forening mot barnemishandling og omsorgssvikt, NFBO, veita verðlaun fyrir MA-ritgerð, sem tengist baráttumálum samtakanna, á ráðstefnu þeirra sem haldin er annað hvert ár. Samtökin vinna með ofbeldi og vanrækslu barna og fyrirbyggjandi aðgerðir eða mögulegar leiðir til að aðstoða börn sem orðið hafa fyrir ofbeldi og vanrækslu.

Í ár hlýtur Halla Dröfn Jónsdóttir félagsráðgjafi verðlaunin fyrir MA-ritgerð sína „Stuðningsúrræði starfsmanna barnaverndar. „Þetta er í raun bara það sem hefur alltaf verið gert““. Leiðbeinandi Höllu Drafnar var Anni G. Haugen, lektor við Félagsráðgjafardeild.

Halla Dröfn lauk MA-námi til starfsréttinda í félagsráðgjöf árið 2015. Ritgerð hennar fjallar um á hvern hátt barnaverndarstarfsmenn vinna með börnum og fjölskyldum þeirra og hvaða aðferðafræði og kenningar þeir nýta helst við vinnuna.

Verðlaunin verða afhent á Norrænni ráðstefnu NFBO sem er haldin í Stokkhólmi dagana 22.-25. maí og mun Halla Dröfn halda þar erindi um rannsókn sína.

Félagsráðgjafardeild óskar Höllu Dröfn innilega til hamingju með verðlaunin.

Halla Dröfn Jónsdóttir
Halla Dröfn Jónsdóttir