Háskóli Íslands

Norræn háhraðatölva tekin í gagnið

Háhraðatölva, sem komið hefur verið upp hér á landi í samstarfi Háskóla Íslands og þriggja annarra norrænna rannsóknarstofnana, var formlega tekin í gagnið í gær. Með rekstri tölvunnar er vonast til að samstarf norrænna háskóla og rannsóknastofnana aukist enn frekar.

Háskóli Íslands var meðal þriggja norrænna háskóla sem buðu í rekstur ofurtölvuversins og varð hlutskarpastur. Samkomulag um rekstur þess hér á landi var undirritað á Háskólatorgi fyrir rétt um ári. Auk Háskóla Íslands standa þrjár erlendar stofnanir: Danish Center for Scientific Computing, Swedish National Infrastructure for Computing og UNINETT Sigma í Noregi, að verkefninu en heildarfjárfesting í því nemur rúmlega einni milljón evra eða um 160 milljónum króna.

Háhraðatölvan er hluti af tilraunaverkefni til þriggja ára sem hefur það að markmiði að prófa hýsingu, þannig að tölvan sé nálægt orkulindunum en ekki öfugt, eins og venjan er, og ná þannig fram umtalsverðum sparnaði. Önnur markmið verkefnisins eru að kanna pólitískar, skipulagslegar og tæknilegar hliðar á sameiginlegu eignarhaldi, umsjón og rekstri svo dýrs og mikilvægs rannsóknainnviðar.

Ofurtölvur – dýrar en nauðsynlegar vísindarannsóknum
Háhraðatölvur gera vísindamönnum kleift að framkvæma öflugar hermanir og smíða líkön, sem eru í auknum mæli forsendur rannsókna og nýsköpunar, sem er undirstaða þekkingardrifins hagkerfis. Norðurlöndin eyða milljónum evra hvert ár í ofurtölvur og orkunotkun þeirra. „Ofurtölvur hafa orðið grundvöllur vísinda og nýsköpunar, en við verðum að skoða hagkvæmar lausnir þegar kostnaður vegna hýsingar og reksturs er orðinn jafnhár vélbúnaðinum“, segir Jacko Koster, framkvæmdastjóri UNINETT Sigma.

Til viðbótar við þennan efnahagslega hvata er að sjálfsögðu umhverfisþátturinn. Rekstur ofurtölva útheimtir mikla orku og það var m.a. vegna umhverfisvæns orkubúskapar og verðlags orkunnar sem ákveðið var að reka ofurtölvuna hér á landi.

Sameiginleg fjárfesting og aðgangur að innviðum
Til lengri tíma litið verða sameiginleg innkaup á stærri innviðum og hýsing ofurtölva á orkuhagkvæmum stað í auknum mæli ákjósanleg fyrir Norðurlöndin. Það er hagkvæmara að reka tölvur sameiginlega en einnig skapast tækifæri til að þróa nýja tækni. „Við verðum stöðugt að auka skilning okkar á tölvum og rekstri þeirra við sífellt flóknari aðstæður“, segir Ebba Þóra Hvannberg, prófessor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands og verkefnisstjóri NHPC. „Norðurlandabúar verða að vera í framvarðasveit á öllum slíkum sviðum þar sem við virðumst aðeins geta búið til viðskiptatækifæri út úr flóknu skipulagi og háþróaðri tækniútfærslu,“ segir Rene Belso, forstöðumaður dönsku ofurtölvumiðstöðvarinnar.

Ofurtölvan er hýst hjá Thor Data Center í Hafnarfirði, sem er hluti af Advania samsteypunni, og búnaður kemur frá Opnum kerfum sem jafnframt sá um að koma honum upp og prófa. Verkefnið er jafnframt unnið í samstarfi og með tilstyrk við mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Efnt var til ráðstefnu í Norræna húsinu í gær í tilefni þess að ofurtölvan var tekið í gagnið en að henni lokinni var haldið í gagnaverið í Hafnarfirði þar sem Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra vígði ofurtölvuna að viðstöddum fulltrúum eigenda frá hinum norrænu ríkjunum.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á vef þess.

Þriðjudagur, 17. apríl 2012 - 14:55
Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is