Skip to main content
27. nóvember 2023

Námssamfélag í Sögu – rætt á sviðsþingi

Námssamfélag í Sögu – rætt á sviðsþingi  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sviðsþing Menntavísindasviðs með yfirskriftinni Námssamfélag í Sögu - fagmennska og gæði í kennslu fór fram fimmtudaginn 23. nóvember á Hilton Reykjavík Nordica. 

Á þinginu var sjónum beint að því hvers konar námssamfélag starfsfólk og nemendur hyggist skapa saman í Sögu. Umræða þingsins fól því m.a. í sér að ræða og leita svara við eftirfarandi spurningum: Hvernig húsnæðið geti stutt við jákvæð samskipti fólks? Hvað starfsfólk og nemendur hyggjast taka með sér úr Stakkahlíð yfir í Sögu og hvað það hyggur að skilja eftir; hvort sem er áþreifanlega hluti sem og vinnulag eða venjur. 

Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs ávarpaði þingið í upphafi, Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, forseti sviðsráðs tók næst til orðs og ávarpaði þingið fyrir hönd nemenda.  

Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor og Torfi Hjartarson lektor komu með kveikjur að samtali um áhrif húsnæðis á námssamfélag ásamt fyrri nemendum sviðsins sem lýstu reynslu sinni af þeim námssamfélögum sem þau hafa tilheyrt á Menntavísindasviði. Erna María Eiríksdóttir og Árni Max Haraldsson, fyrrverandi nemendur í diplóma í kennslufræði fyrir iðnmeistara og Lárus Sigurðarson, fyrrverandi meistaranámsnemi í íþrótta- og heilsufræði stigu á stokk og sögðu frá reynslu sinni af því námssamfélagi sem þau tilheyrðu, ýmist í stað- og fjarnámi. Þessi innlegg tóku þátttakendur í farteskið fyrir hópavinnu um hvernig hlúa mætti að líflegu námssamfélagi á Menntavísindasviði í Sögu þar sem rætt var um námssamfélag; í staðlotum, staðnema, á vef námskeiða, við rannsóknir og í stoðþjónustu. Fulltrúar kennslusviðs og upplýsinga- og tæknisviðs skólans sátu sviðsþingið og tóku jafnframt þátt í umræðum, enda er hönnun árangursríks námumhverfis mikilvægt samvinnuverkefni miðlægrar stjórnsýslu og fræðasviða.  

Að umræðum loknum kynnti Katrín Á. Johnson, verkefnastjóri mannauðs- og starfsumhverfis, um stöðu framkvæmda og undirbúningsferli framundan fyrir flutninginn. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands hélt svo tölu og sleit þinginu. Fundarstjórar voru Hróbjartur Árnason, kennsluþróunarstjóri Menntavísindasviðs og lektor í kennslufræði fullorðinna og Védís Grönvold, kennslustjóri Menntavísindasviðs.

Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor og Torfi Hjartarson lektor komu með kveikjur að samtali um áhrif húsnæðis á námssamfélag.
Fundarstjórar voru Hróbjartur Árnason og Védís Grönvold.
 Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, forseti sviðsráðs.
Sviðsþing að hausti á Menntavísindasviði.
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs.
Hópavinna á sviðsþingi MVS.