Skip to main content
11. maí 2017

Menntun fimm ára barna í brennidepli

„Ráðstefnan er hugsuð fyrir breiðan hóp og við vonumst til þess að hún hvetji fulltrúa ólíkra aðila til að ræða faglegar forsendur menntunar,“ segir Kristín Karlsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, um ráðstefnuna Hvernig menntun þurfa fimm ára börn? sem haldin verður á Grand Hótel þann 15. maí nk.

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarin áratug um hvar nám þessa aldurshóps eigi heima. „Ráðstefnan er vettvangur fyrir foreldra sem þurfa að taka ákvörðun um hvort þau vilji flytja barn sitt úr leikskóla í grunnskóla, fyrir stjórnmálamenn sem standa frammi fyrir ákvarðanatöku um hvernig staðið skuli að menntun þessa aldurshóps og fyrir leik- og grunnskólakennara sem þurfa að leita leiða til að sjá börnum fyrir viðunandi menntunarskilyrðum o.s.frv.“

Hún segir að leikskólakennarar hafi brugðist við þessari umræðu og skipuleggi gjarnan annars konar viðfangsefni fyrir elstu börn leikskólans. „Grunnskólakennarar þurfa að leita leiða til að sníða kennslu sína að börnum sem eru ári yngri en þau börn sem þeir hafa áður starfað með, sem hefur svo áhrif á það sem tekur við í 1. bekk grunnskóla. Brýnt er að tengja saman reynslu barna í leikskóla og nám þeirra í grunnskóla.“

Nú hafa sveitarfélög í auknum mæli starfrækt fimm ára bekki í grunnskólum. Hvaða ástæður liggja þar að baki? „Eftir því sem ég fæ best séð virðast ástæður þess yfirleitt vera praktískar. Oftar en ekki er ástæðan skortur á leikskólaplássum og þá er lausnin að flytja elstu börn leikskólans yfir í grunnskóla. Lögum samkvæmt eiga fimm ára börn að vera í leikskólum og þar af leiðandi á að skipuleggja nám þeirra út frá aðalnámskrá leikskóla. Stjórn RannUng telur mikilvægt að ræða hvers konar nám hæfir þessum aldurshóp út frá ýmsum sjónarhornum, bæði faglegum og fræðilegum, en jafnframt út frá sjónarmiðum mismundandi hagsmunaaðila.“

Börn læra best í gegnum leik

Ljóst er að mörgu er að hyggja við menntun fimm ára barna en fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að börn læra best í gegnum leik þar sem áhugi þeirra og frumkvæði fær notið sín. „Þau læra ýmsa félags- og tilfinningalega þætti, ekki aðeins samskipti við aðra heldur þróa þau eigin sjálfsmynd og byggja upp ýmsa þekkingu, t.d. læsi, stærðfræði og náttúruvísindi. Því er mikilvægt að börnum sé séð fyrir skipulagi og umhverfi þar sem rými er fyrir leik og samskipti við jafnaldra og kennara. Að þau fáist við viðfangsefni sem vekur áhuga þeirra og hafi svigrúm til að leita lausna í samvinnu við aðra,“ bendir Kristín á.

Rannsóknastofa í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) stendur fyrir ráðstefnunni í samstarfi við nokkra aðila en tíu ár eru liðin frá stofnun stofunnar.

Uppselt er á ráðstefnuna en hátt í þrjú hundruð miðar voru í boði. 

Sjá einnig: Mannlegi þátturinn á RÚV

Dagskrá ráðstefnunnar

Kristín Karlsdóttir