Skip to main content
7. desember 2016

MBA-nemar með kynningu í höfuðstöðvum Starbucks

MBA-nemar frá Háskóla Íslands kynntu í gær hugmyndir sínar um útfærslu á ákveðnum rekstrarlegum þáttum fyrir yfirstjórn bandaríska veitingarisans Starbucks í Seattle í Bandaríkjunum. Fyrir helgina óskaði Starbucks eftir nánari kynningu nemenda Háskólans á hugmyndum þeirra um útfærslu á ákveðnu rekstrarfyrirkomulagi hjá kaffihúsakeðjunni heimsþekktu. Héldu nokkrir nemendanna strax til Seattle og var kynningin í gær, þriðjudaginn 6. desember, í höfuðstöðvum Starbucks. Viðstaddir frá Starbucks voru Tara Haistings, Peter Filipovic og Chuck Little, sem öll eru háttsettir viðskiptaþróunarstjórar hjá fyrirtækinu, með ólíkar áherslur eftir heimsálfum. 

MBA-nemar á öðru ári við Háskóla Íslands hafa undanfarið unnið að verkefni tengdu ákveðnum rekstrarlegum þáttum Starbucks í námskeiðinu Alþjóðasamskipti undir leiðsögn Svölu Guðmundsdóttur dósents. Tara Haistings, sem starfar sem svokallaður Diversity Manager hjá Starbucks, var gestakennari í námskeiðinu. Kynningin í Bandaríkjunum kemur í framhaldi af þeirri miklu vinnu sem fór fram á námskeiðinu.

Eitt af markmiðum MBA-námsins er að byggja upp og viðhalda öflugum tengslum við atvinnulífið á alþjóðlegum grunni og vinna að nýjum raunhæfum verkefnum í rekstri fyrirtækja. Raundæmi (e. case study) um Starbucks eru mjög vinsæl í viðskiptaháskólum um heim allan enda er Starbucks í 48. sæti yfir bestu vörumerki heims að mati viðskiptatímaritsins Forbes.

Það er því gríðarlega mikil viðurkenning fyrir Háskóla Íslands að MBA-nemendur við skólann fái tækifæri til að kynna eigið verkefni og tillögur að lausnum í höfuðstöðvum Starbucks. Raundæmi frá Harvard Business School eru mjög vinsæll efniviður í MBA-námi um allan heim en með þessu er ljóst að lausnir í raundæmum frá MBA í Háskóla Íslands eiga erindi inn í alþjóðlegt viðskiptaumhverfi.

MBA nemar frá Háskóla Íslands fyrir utan Starbucks
MBA nemar frá Háskóla Íslands fyrir utan Starbucks