Skip to main content
26. febrúar 2024

Marel og HÍ semja um áframhaldandi stuðning við Snjallræði

Marel og HÍ semja um áframhaldandi stuðning við Snjallræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Marel, eitt árangursríkasta nýsköpunarfyrirtæki sem sprottið hefur upp á Íslandi, og Háskóli Íslands undirrituðu nýlega samning um áframhaldandi samstarf í tengslum við vaxtarrýmið Snjallræði (e. Startup Social) sem styður við samfélagsleg nýsköpunarverkefni. 

Snjallræði var stofnað af Höfða – friðarsetri Reykjavíkurborgar og HÍ árið 2018 og hefur verið í boði fimm sinnum í samstarfi við MITdesignX. Þungamiðja þess eru vinnustofur þar sem að sérfræðingar frá MIT-háskólanum koma til landsins og deila þekkingu sinni. Þátttakendur í Snjallræði fá jafnframt fræðslu og þjálfun frá innlendum og erlendum sérfræðingum á sviði samfélagsmála og nýsköpunar og fundi með reyndum mentorum.

Hrefna Haraldsdóttir, forstöðukona Marel á Íslandi, og Pia Elísabeth Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, skrifuðu undir samninginn.

„Við í Marel höfum verið stolt að sjá hreint út sagt frábær nýsköpunarverkefni mótast í Startup Social hraðlinum. Gæði verkefnanna og fjölbreytni sýna ótvírætt fram á gildi þess að kalla sérstaklega eftir og hlúa að nýsköpunarhugmyndum með samfélagslegar áherslur. Við hlökkum mikið til að vinna áfram náið með Snjallræði, háskólunum og öðrum bakhjörlum og svo auðvitað að sjá verkefnin halda áfram að stækka og blómstra samfélaginu okkar til góðs,“ segir Hrefna.
 

Hrefna Haraldsdóttir, forstöðukona Marel á Íslandi, og Pia Elísabeth Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, undirrita nýjan samning.

Snjallræði er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands auk MITDesignX en sérfræðingar frá öllum háskólum aðstoða þátttakendur við að raungera hugmyndir sínar. Háskóli Íslands stýrir verkefninu en auk stuðnings frá Marel er verkefnið styrkt af Reykjavíkurborg. Samstarf háskólanna og öflugra bakhjarla er grundvallarþáttur í þróun og vexti nýsköpunar á Íslandi. 

Markmið vaxtarrýmisins Snjallræðis er að ýta undir nýsköpun þar sem tekist er á við áskoranir samtímans og það er þannig mikilvægur vettvangur fyrir samfélagssprota. Áhersla er lögð á að ýta undir sjálfbærni í nýsköpun og byggja upp nýsköpunarverkefni sem styðja með beinum hætti við eitt eða fleiri af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna allt frá fyrstu skrefum. Það geta verið lausnir sem snúa að heilbrigðisþjónustu, velferðartækni, bættu menntakerfi og jafnréttismálum, svo dæmi séu tekin.

Fulltrúar Marels og HÍ við undirritun samstarfssamningsins. Frá vinstri: Sveinn Kjarval, Hrefna Haraldsdóttir, Pia Elísabeth Hansson og Oddur Sturluson