Skip to main content
25. janúar 2016

Málþing um almannavarnir og hlutverk félagsþjónustu

""

Þann 18. janúar héldu Norræna velferðarvaktin, Velferðarráðuneytið og Félagsráðgjafardeild málþing í Norræna húsinu þar sem rætt var um hlutverk félagsþjónustu og samstarf stofanana á sviði almannavarna hérlendis og í Svíþjóð. Rannsóknarverkefnið Velferð og vá er eitt þriggja rannsóknarverkefna sem unnin eru undir hatti Norrænu velferðarvaktarinnar í tilefni af formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Um þriggja ára verkefni er að ræða og þann 10. nóvember næstkomandi verða niðurstöður verkefnanna kynntar á ráðstefnu sem haldin verður í Reykjavík, sjá nánar hér.

Guðný Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjöf, leiðir verkefnið og Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir stýrir daglegum rekstri þess á Félagsvísindastofnun. Guðný og Ingibjörg taka, ásamt öðrum fræðimönnum í verkefninu, einnig þátt í öndvegissetrinu NORDRESS sem hlaut styrk frá Nordforsk á síðasta ári.

Tveir gestafræðimenn hafa dvalið hérlendis í tengslum við verkefnið á liðnum vikum. Í janúarmánuði hefur Carin Björngren Cuadra, dósent í félagsráðgjöf við Lundarháskóla, dvalið hér á landi. Carin er sænskur fulltrúi stýrihópsins í verkefninu. Rannsóknir hennar beinast að hlutverki félagsþjónustunnar í skipulagi almannavarna í Svíþjóð, sjá nánar hér.

Erna Danielsson er einn af fulltrúum sænska ráðgjafarhópsins í verkefninu. Hún er dósent við félagsvísindadeild Mittuniversitet í Svíþjóð, sjá nánar um Ernu hér. Jafnframt starfar hún við rannsóknir við rannsóknasetrið Risk and Crisis Research Centre sem staðsett er við háskólann. Rannsóknir hennar þar hafa einkum beinst að samstarfi ólíkra viðbragðsaðila á hamfaratímum. Nánari upplýsingar um setrið og starfsemi þess eru hér.

Á málþinginu kynnti Erna Danielson starf rannsóknasetursins og sagði frá rannsóknum sínum á samvinnu ólíkra viðbragðsaðila og faghópa í kjölfar hamfara og áfalla. Carin Björngren Cuadra kynnti rannsókn sem hún vinnur að á vegum MSB (stofnun almannavarna í Svíþjóð) á hlutverki félagsþjónustu sveitarfélaga í kjölfar vár.

Jafnframt fluttu fulltrúar úr íslenska ráðgjafarhópnum fyrirlestra. Guðrún Jóhannesdóttir, verkefnisstjóri hjá Almannavörnum, greindi frá nýlegri skýrslu um áhættumat sveitarfélaga hérlendis og Víðir Reynisson, fulltrúi hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði frá verkefni sem hann vinnur að með 14 sveitarfélögum á Suðurlandi.  Þá tóku Gyða Hjartardóttir, félagsmálafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kristján Sturluson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Rauða Kross Íslands og sviðsstjóri stjórnssýslu Hafnarfjarðarbæjar, Ragnheiður Hergeirsdóttir, verkefnisstjóri hjá VInnumálastofnun, og Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, þátt í pallborði þar sem þau ræddu hlutverk félagsþjónustu á tímum hamfara og hvernig mætti nýta þær niðurstöður sem fyrirlesarar kynntu.

Málþingsstjóri var Ragnar Þorvarðarson, formaður Rauða krossins í Reykjavík.

Frá málþingi um almannavarnir og hlutverk félagsþjónustu
Frá málþingi um almannavarnir og hlutverk félagsþjónustu
Frá málþingi um almannavarnir og hlutverk félagsþjónustu
Frá málþingi um almannavarnir og hlutverk félagsþjónustu