Skip to main content
9. febrúar 2015

Lesblindurannsókn í Neuropsychology

Ný rannsókn sem vísindamenn við Sálfræðideild Háskóla Íslands hafa unnið og birtist fyrir helgi á vefsíðu vísindatímaritsins Neuropsychology leiðir í ljós vísbendingar um að lesblindir glími ekki aðeins við erfiðleika við að lesa heldur einnig að greina á milli andlita og annarra hluta sem eru mjög líkir, eins og mismunandi gerða flugvéla eða ólíkra tegunda fugla.

Flest fullorðið fólk les nokkuð sjálfkrafa, hratt og án mikillar umhugsunar en ákveðinn hluti nær aldrei slíkri færni. Vísindamenn hafa almennt verið sammála um það hingað til að lesblinda eða leshömlun sé röskun á tungumáli, einkum hljóðkerfisleg röskun. Rannsóknarhópur undir forystu Heiðu Maríu Sigurðardóttur, nýdoktors við Sálfræðideild, og Árna Kristjánssonar, dósents við sömu deild, hefur hins vegar undanfarið rannsakað hvort fleiri þættir spili þarna inn í, eins og þættir tengdir sjóninni.

Nýleg greining á fjölda heilaskimunarrannsókna á fólki með lesblindu leiddi í ljós vanvirkni á tilteknum stað í vinstri hluta heilans, svokallaðri vinstri spólufellingu. Spólufellingin er hluti af sjónkerfi mannsins og er talin gegna mikilvægu hlutverki við að bera kennsl á alls konar hluti, sem sagt þekkja þá í sjón. Þessi vanvirkni virðist einkum vera í tveimur heilasvæðum innan vinstri spólufellingar en bæði börn og fullorðnir með lesblindu mælast með vanvirkni á því svæði. Þetta kemur heim og saman við þá staðreynd að ef vinstri spólufellingin skemmist af einhverjum orsökum getur fólk átt í mestu vandræðum með að lesa þrátt fyrir að hafa lesið bæði hratt og örugglega áður en það varð fyrir skaðanum.

Í rannsókninni, sem um ræðir og birtist í Neuropsychology, bar rannsóknarhópurinn saman frammistöðu 20 lesblindra einstaklinga á fullorðinsaldri og jafnmargra sem ekki glímdu við lesblindu í nokkrum prófum sem reyna á hlutakennsl. Þátttakendur í hópunum tveimur voru paraðir eftir kyni, aldri og menntunarstigi. Lagt var fyrir sérstakt andlitskennslapróf sem meðal annars hefur verið mikið notað til að skima fyrir andlitsblindu (e. prosopagnosia) ásamt prófi sem mælir svokallaða heildræna andlitsskynjun (e. holistic processing). Heildrænni skynjun má lýsa þannig að heildin sé meira en summa partanna sem mynda hana og heildræn skynjun er gjarnan talin eitt aðalsmerki andlitsskynjunar. Þá fengu hóparnir einnig það verkefni að þekkja aftur og greina á milli hluta innan tiltekinna flokka, eins og bíla, flugvéla, fugla, fiðrilda og húsa.

Rannsóknin leiddi í ljós að lesblindir eiga erfiðara með en þeir, sem eru það ekki, að þekkja í sundur andlit og aðra flókna hluti innan áðurnefndra flokka. Vandamálið má ekki rekja til röskunar á heildrænni skynjun heldur virðist fremur í samræmi við röskun á svokallaðri þáttaháðri skynjun (e. part-based processing, heildin er summa partanna sem mynda hana). Þetta er í samræmi við niðurstöður annarra rannsókna sem benda til þess að heildræn skynjun tengist helst starfsemi hægra heilahvels en að þáttaháð skynjun sé nátengdari starfsemi vinstra heilahvels þar sem lesblindir greinast með fyrrnefnda vanvirkni í spólufellingu. Lestrarörðugleikar lesblindra eru því ef til vill augljósasta afleiðing almennari röskunar á hlutakennslum sem aftur má rekja til vanvirkni í vinstri spólufellingu heilans.

„Það hefur ríkt nokkur sátt um að lesblinda eða leshömlun sé röskun á tungumáli, einkum hljóðkerfisleg röskun. Niðurstöður okkar ganga ekki endilega gegn þessum hugmyndum en benda þó til þess að sjónrænir þættir geti einnig komið við sögu. Niðurstöður rannsóknarinnar ganga enn fremur ekki endilega í berhögg við þær hugmyndir að lesblindir sýni e.t.v. einhverja sjónræna styrkleika, til dæmis virðist lesblinda nokkuð algeng meðal listamanna. Það eru nefnilega ekki nærri öll sjónræn verkefni sem byggja á starfsemi vinstri spólufellingar. Það að nota sjónrænar upplýsingar til að stjórna aðgerðum, t.d. teikna eða mála, byggist til dæmis mun fremur á öðrum heilasvæðum en vinstri spólufellingu,“ segir Heiða María Sigurðardóttir um rannsóknina.

Rannsóknarhópurinn telur nauðsynlegt að fylgja þessari rannsókn eftir enn frekar og leitar því að þátttakendum, bæði lesblindum og þeim sem ekki glíma við lesblindu, í nýja rannsókn. Þeir sem vilja forvitnast frekar um rannsóknina og hugsanlega taka þátt í henni geta sent tölvupóst á netfangið skynjun@hi.is eða hringt í síma 525-5428 á skrifstofutíma.

Einnig má fylgjast með verkefninu á Facebook-síðu þess

Vísbendingar eru um að að lesblindir glími ekki aðeins við erfiðleika við að lesa heldur einnig að greina á milli andlita og annarra hluta sem eru mjög líkir.
Vísbendingar eru um að að lesblindir glími ekki aðeins við erfiðleika við að lesa heldur einnig að greina á milli andlita og annarra hluta sem eru mjög líkir.