Skip to main content
7. nóvember 2016

Leitað að nafni á nýjan sýndarsjúkling

""

Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands bættist góður liðsauki á dögunum þegar hún eignaðist þrjá nýja sýndarsjúklinga. Deildin leitar nú aðstoðar háskólasamfélagsins við að finna nafn á yngsta meðlim sýndarsjúklingafjölskyldunnar. Nýju sýndarsjúklingarnir tengjast opnun nýs og fullkomins Færniseturs við Hjúkrunarfræðideild.

Nemendum og starfsfólki Háskóla Íslands gefst kostur á að koma með tillögu að nafni á minnsta sýndarsjúklinginn sem líkir eftir sjúklingi á barnsaldri. Sérstök valnefnd á vegum Hjúkrunarfræðideildar mun fara í gegnum tillögurnar og velja úr þá bestu. Sýndarsjúklingnum verður svo formlega gefið nafn við opnun Færnisetursins fimmtudaginn 10. nóvember næstkomandi. 

Smelltu hér til að koma með tillögu að nafni. 

Sýndarsjúklingur er tölvustýrð brúða í mannsstærð sem líkir eftir viðbrögðum raunverulegs sjúklings, allt eftir því hvaða þætti á að þjálfa hverju sinni. Sýndarsjúklingurinn getur til dæmis farið í ofnæmislost, lungu hans geta fallið saman og hjartað stöðvast. Hægt er að stýra lungnahljóðum, púls og garnahljóðum, svo fátt eitt sé nefnt. Sýndarsjúklingur gefur nemendum tækifæri til að byggja upp klíníska færni áður en þeir annast raunverulega sjúklinga. Slíkt skapar markvissari vinnubrögð þegar nemandinn þarf að takast á við raunverulegar aðstæður á sjúkradeildum og stuðlar að öryggi sjúklinga. Tilkoma sýndarsjúklinganna er gríðarlega mikilvægur áfangi í hjúkrunarfræðikennslu hér á landi sem og í kennslu annarra heilbrigðisvísindagreina.

Markmið með starfsemi Færnisetursins er að nemendur í heilbrigðisvísindum fái kennslu og þjálfun í flestu því er snýr að meðferð sjúklinga. Í Færnisetrinu er kennt í öruggum aðstæðum og hægt að endurtaka viðfangsefni eins oft og þörf krefur. Í setrinu er líkt eftir raunverulegum aðstæðum og nemendur undirbúnir eins vel kostur er fyrir störf á heilbrigðisstofnunum. Færnisetrið er staðsett á 2. hæð í Eirbergi, húsakynnum Hjúkrunarfræðideildar við Eiríksgötu.

Fyrir á Hjúkrunarfræðideild sýndarsjúklinginn Hermann frá árinu 2008. Efnt var til samkeppni um nafn á Hermann á sínum tíma og alls bárust á fimmta hundrað tillögur. 

Hjúkrunarfræðinemar að störfum
Hjúkrunarfræðinemar að störfum