Skip to main content
16. ágúst 2023

Kennarar í íslensku og íslensku sem öðru máli flytja í Eddu – hús íslenskunnar

Kennarar í íslensku og íslensku sem öðru máli flytja í Eddu – hús íslenskunnar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Á liðnum dögum hafa kennarar í íslensku og íslensku sem öðru máli verið að flytja vinnuaðstöðu sína yfir í Eddu – hús íslenskunnar. Um er að ræða tæplega 40 málfræðinga og bókmenntafræðinga sem eru með aðstöðu á 3. hæð nýja hússins. Fyrr í sumar fluttu starfsmenn Árnastofnunar í Eddu og er hún orðin lifandi vinnustaður stórs hóps fræðafólks á sviði íslensks máls, bókmennta og menningar.

Í september verða tekin í notkun vinnurými á 3. hæð fyrir doktorsnema, nýdoktora og emeritusa og í kjölfarið aðstaða á 2. hæðinni fyrir nemendur í grunn- og meistaranámi. Þar eru enn fremur fimm kennslustofur sem nýttar verða af Háskóla Íslands frá og með næstu áramótum.

Um mitt ár 2024 verður opnuð á jarðhæðinni ný handritasýning Árnastofnunar sem mun væntanlega draga til sín þúsundir gesta árlega.

Edda – hús íslenskunnar.