Skip to main content

Keilir fagnar tíu ára afmæli

5. maí 2017

Keilir – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs fagnar um þessar mundir tíu ára afmæli og af því tilefni var efnt til veglegrar afmælishátíðar í húsakynnum skólans á Ásbrú í gær. Háskóli Íslands er einn af stofnendum Keilis og stærsti hluthafi skólans auk þess sem nemendur í mekatróník hátæknifræði og iðnaðartæknifræði fyrir efna- og líftækniiðnað við Keili brautskrást með BS-gráðu frá Háskóla Íslands.

Skólinn var formlega stofnaður 4. maí 2007 en stofnendur Keilis ásamt Háskóla Íslands eru Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Reykjanesbær og fleiri aðilar.  Frá upphafi var lögð á að Háskólinn skapaði kjölfestu í menntastarfi Keilis en skólinn hefur vaxið og dafnað og býður nú upp á nám á fjórum sviðum: Háskólabrú, Flugakademíu, Íþróttaakademíu og tæknifræði sem skiptist í áðurnefndar tvær námsleiðir. Háskólabrúin og tæknifræðin eru á ábyrgð Háskóla Íslands. Þess má geta að frá stofnun  hafa nærri 1500 manns lokið framhaldsskólanámi í Háskólabrú Keilis en námið gefur nemendum færi á að innrita sig í allar deildir Háskóla Íslands.

Í tilefni tíu ára afmælis Keilis í gær var efnt til veglegrar afmælishátíðar í Andrews-leikhúsinu á Ásbrú þar sem m.a. var bæði boðið upp á tónlist, skemmtiatriði og ræðuhöld. Meðal ræðumanna voru Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, en einnig var boðið upp á málþing með þátttöku m.a. fyrrverandi nemenda og fulltrúa úr atvinnulífi þar sem rætt var um horfur í menntamálum næsta áratuginn.

Í ávarpi sínu sagði Jón Atli m.a. að það hefði verið Háskólanum kappsmál að bjóða upp á tæknifræðinám til BS-prófs á vettvangi Keilis enda væru þar afbragðs aðstæður fyrir slíkt nám. „Það er afar brýnt að fjölga nemendum í tæknigreinum á háskólastigi, atvinnulífið kallar eftir tæknimenntuðu vinnuafli og alþjóðleg þróun staðfestir að þörfin fyrir tæknimenntað fólk vex hratt – og raunar hraðar en við höldum,“ benti rektor á og bætti við að sameinað átak þyrfti til að bregðast við þessum vanda hér á landi, m.a. með vel fjármögnuðu háskólastarfi sem byði upp á góða tilrauna- og verkefnaaðstöðu.

Rektor rifjað einnig upp við hvaða aðstæður Keilir var settur á laggirnar en þá fór m.a. saman aflabrestur á miðunum og brotthvarf bandaríska herliðsins með tilheyrandi fækkun starfa og þrengingum í samfélaginu. Með Keili hefði verið ætlunin að byggja upp háskólasamfélag og efla bæði rannsóknir og kennslu a svæðinu. „Með samstilltu átaki ólíkra aðila hefur tekist að breyta gamalli herstöð í kvikt og þróttmikið samfélag sem einkennist af frumkvæði, nýsköpun, rannsóknastarfi og fjölbreyttum tækifærum til aukinnar menntunar. Keilir er miðpunkturinn í þessu nýja og gróskumikla samfélagi á Ásbrú. Að mínu mati hefur Keilir því sannarlega staðið undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar í upphafi og gott betur,“ sagðir rektor enn fremur.

Háskóli Íslands óskar Keili innilega til hamingju með afmælið.

Ræða rektors í heild sinni (pdf)

Þátttakendur í umræðum á afmælishátíð Keilis
Jón Atli Benediktsson
Frá afmælishátíð Keilis