Skip to main content
6. júní 2017

Kanadísk teiknimynd frumsýnd í Háskóla Íslands

""

Teiknimyndin First Contact eftir Scott MacLeod og Samönthu Rideout verður frumsýnd hér á landi fimmtudaginn 8. júní kl. 16.30 í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands. Miðaldastofa Háskóla Íslands og Sendiráð Kanada á Íslandi standa sameiginlega að þessum viðburði en Samantha Rideout, handritshöfundur myndarinnar, útskrifaðist með meistarapróf í íslenskum miðaldafræðum frá Háskóla Íslands árið 2007. Hún starfar nú við blaðamennsku í Montreal í Kanada. (Sjá heimasíðu Samönthu).

Teiknimyndin fjallar um fyrstu samskipti norrænna manna og frumbyggja Norður-Ameríku á Nýfundnalandi. Úr vestri kemur flokkur veiðimanna af Beothuk-þjóðinni en úr austri norrænir menn úr byggðum Grænlands. Þeir mætast á Nýfundnalandi og í fyrstu eru samskiptin vinsamleg en brátt skapast tortryggni og ágreiningur. Sagan er sögð af tveimur konum, Guðríði Þorbjarnardóttur og Bobodish úr Genoet-ættbálknum.

Myndin er um hálftíma löng. Á undan myndinni munu leikstjórinn, Scott MacLeod, og sendiherra Kanada á Íslandi, Anne-Tamara Lorre, flytja stutt ávörp en eftir sýninguna gefst gestum tækifæri til að ræða málin við leikstjórann.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Hér má nálgast nánari upplýsingar um myndina.

Að neðan má hlusta á viðtal við Harald Bernharðsson, dósent við Íslensku- og menningardeild og einn umsjónarmanna námsins.

Veggspjald myndarinnar og Samantha Rideout, einn höfundur hennar.