Skip to main content
11. ágúst 2016

Kallað eftir málstofum á NonfictioNOW

""

Kallað er eftir málstofum af ýmsu tagi, jafnt fræðilegum sem listrænum, fyrir alþjóðlegu ráðstefnuna NonfictioNow sem haldin verður í Reykjavík 2.-4. júní 2017. Um er að ræða eina stærstu ráðstefnu sinnar tegundar í heiminum og er Hugvísindasvið Háskóla Íslands gestgjafi hennar að þessu sinni. Tillögum að málstofum skal skila inn í gegnum vefsíðu ráðstefnunnar, í síðasta lagi 31. ágúst 2016.

Gert er ráð fyrir 70–80 málstofum og viðburðum í tengslum við ráðstefnuna og gefst íslenskum höfundum og fræðimönnum kostur á að senda inn tillögur að málstofum, þ.á m. um íslenskar bókmenntir úr þessum bókmenntageira. Í málstofum eru tekin til umræðu hin mýmörgu form óskáldaðra skrifa, frá vídeóesseyjum til minningabóka, sannsagna og bókmenntalegrar blaðamennsku.

Sambærilegur bókmenntaviðburður hefur ekki verið haldinn áður á Íslandi og því er mikill fengur að ráðstefnunni fyrir íslenskt bókmenntasamfélag. Ráðstefnan verður haldin í Háskóla Íslands en boðsfyrirlestrar verða í Hörpu og gefst öðrum en skráðum ráðstefnugestum kostur á að sækja þá gegn vægu gjaldi.

Norski rithöfundurinn Karl Ove Knausgård verður einn lykilfyrirlesara ráðstefnunnar en Min Kamp bækur hans hafa vakið verulega athygli á undanförnum árum. Hann hefur stundum kallað þær óskáldaðar skáldsögur en í þeim miðlar hann sannsögulegu efni, það er ævi sinni, í formi skáldsögu. Auk Knausgårds eru lykilfyrirlesarar á hátíðinni Maxine Beneba Clarke, Ástrali af afrókarabísku bergi brotin, en hún þykir fersk og spennandi rödd í bókmenntaheiminum. Þá kemur bandaríski rithöfundurinn Gretel Ehrlich fram, en hún er einna þekktust fyrir bókina Solace of Open Spaces, og ljóðskáldið og menningarrýninn Wayne Koestenbaum sem fæst meðal annars við kynhneigð og kyngervi í verkum sínum.

Að jafnaði sækja ráðstefnuna 400–500 manns hvaðanæva úr heiminum, höfundar, kennarar og stúdentar. Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist við Háskóla Íslands, segir þetta ekki vera hefðbundna akademíska ráðstefnu heldur frekar sambland af bókmenntahátíð og ráðstefnu.

Í íslensku ráðstefnustjórninni sitja Ásdís Sigmundsdóttir, aðjunkt í bókmenntafræði (ags@hi.is), Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði (gautikri@hi.is), og Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist (rhv@hi.is). Þau veita nánari upplýsingar.

Heimasíða ráðstefnunnar.

Facebook-hópur sem helgaður er ráðstefnunni.

Karl Ove Knausgård
Karl Ove Knausgård