Skip to main content
30. júní 2015

Jón Atli tekur við sem rektor Háskóla Íslands

""

Jón Atli Benediktsson, prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, tók í dag formlega við embætti rektors Háskóla Íslands á fjölmennri athöfn í Hátíðasal skólans. Hann er sá 29. í röðinni sem gegnir embættinu.

Eins og kunnugt er fór Jón Atli með sigur af hólmi í rektorskjöri í aprílmánuði síðastliðnum þar sem hann hlaut tæp 55% greiddra akvæða í seinni umferð kosninganna. Í framhaldinu tilnefndi háskólaráð Háskóla Íslands hann sem rektor til mennta- og menningarmálaráðherra sem skipað hefur Jón Atla rektor til næstu fimm ára.

Við athöfnina í Hátíðasal Háskóla Íslands í dag flutti Kristín Ingólfsdóttir, fráfarandi rektor, kveðjuávarp sitt en hún hefur gegnt embættinu undanfarin tíu ár. Í ræðu sinni sagði hún þakklæti sér efst í huga á þessum tímamótum. „Það hafa verið einskær forréttindi að kynnast því kraftmikla fólki sem starfar hér að kennslu, vísindum, stjórnsýslu, stoðþjónustu og nýsköpun og ósérhlífni þess og metnaði við að tryggja að kjarnastarfsemi skólans verði eins farsæl og mögulegt er. Fyrir þetta vil ég þakka. Stúdentar hafa tekið virkan þátt í uppbyggingu skólans – lagt af mörkum til rannsókna og nýsköpunar, tekið þátt í stjórnun, staðið eins og klettur með skólanum í mótviðri eftir efnahagshrunið. Fyrir þetta vil ég þakka,“ sagði Kristín sem heldur í haust til starfa í Bandaríkjunum en þar hefur hún þegið boð um að verða gestaprófessor við Massachusetts Institute of Technology (MIT).

Ræða Kristínar Ingólfsdóttur í heild sinni.

Að loknu ávarpi sínu afhenti Kristín Jóni Atla tákn rektorsembættisins og í framhaldinu flutti Jón Atli ávarp þar sem hann lýsti framtíðarsýn sinni. Þar benti hann m.a. á að Háskóli Íslands hefði ríkar skyldur við samfélagið og hvatti hann til fjárfestingar í menntun því það væri fjárfesting til framtíðar. „Háskóli Íslands gegnir nú mikilvægara hlutverki en nokkru sinni fyrr í íslensku samfélagi. Hann flytur til landsins alþjóðlega þekkingar- og hugmyndastrauma og miðlar um leið í síauknum mæli vísindum og fræðum til annarra landa á mörgum sviðum. Íslenskt vísindafólk nýtur virðingar víða um lönd og sífellt fleiri erlendir stúdentar kjósa að leggja leið sína til landsins og nema við skólann,“ sagði Jón Atli enn fremur í ávarpi sínu.

Ræða Jóns Atla Benediktssonar í heild sinni.

Um Jón Atla Benediktsson

Hinn nýi rektor, Jón Atli Benediktsson, er fæddur í Reykjavík 19. maí 1960, næstelstur í hópi sex systkina. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1980 og prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands 1984. Árið 1985 hóf hann nám við Purdue University í Indiana í Bandaríkjunum og lauk doktorsprófi í rafmagnsverkfræði þaðan árið 1990.

Í júní 1991 hóf hann störf sem lektor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands. Þar hefur hann kennt margvísleg námskeið og leiðbeint fjölda nemenda auk þess að stunda rannsóknir á sviði fjarkönnunar, merkjafræði og lífverkfræði. Árið 1994 fékk Jón Atli framgang í starf dósents og framgang í starf prófessors árið 1996. 

Jón Atli er einn afkastamesti vísindamaður háskólans. Hann er höfundur meira en 300 fræðigreina og bókarkafla. Rannsóknir hans hafa vakið athygli sem sést m.a. af því að mikið er vitnað til verka hans og hann er eftirsóttur fyrirlesari á alþjóðavettvangi. Þá hefur Jón Atli fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar. 

Jón Atli hefur enn fremur verið virkur í nýsköpun og stofnaði m.a. með Einari Stefánssyni, prófessor í augnlækningum o.fl., sprotafyrirtækið Oxymap sem þróað hefur tæki og hugbúnað til greiningar augnsjúkdóma með stafrænni myndgreiningu. Jón Atli er höfundur þriggja einkaleyfa.

Innan hins alþjóðlega fræðasamfélags hafa Jóni Atla verið falin fjölmörg trúnaðarstörf. Nefna má að hann var á árunum 2003-2008 ritstjóri fræðitímaritsins „IEEE Transactions on Geoscience and Remote Sensing“, en það er eitt helsta alþjóðalega fræðitímaritið á sviði fjarkönnunar. Hann hefur enn fremur setið í ritstjórnum margra annarra alþjóðlegra fræðirita. 

Á vettvangi Háskóla Íslands hefur Jón Atli mjög víðtæka stjórnunarreynslu. Frá 2009 hefur hann verið aðstoðarrektor vísinda og kennslu. Hann var þróunarstjóri og aðstoðarmaður rektors á árunum 2006-2008. Þá var Jón Atli formaður vísindanefndar háskólaráðs á árunum 1999-2005 og formaður gæðanefndar háskólaráðs 2006-2015. Jón Atli hefur verið forstöðumaður Miðstöðvar framhaldsnáms frá 2009. Hann var einnig skorarformaður í rafmagns- og tölvuverkfræði um þriggja ára skeið.

Jón Atli situr í Vísinda- og tækniráði og sat einnig í ráðinu á upphafsárum þess (2003-2006). Hann var formaður stjórnar Rannsóknanámssjóðs 2007-2009 og stjórnarformaður orkufyrirtækisins Metans á árunum 1999-2004.

Árið 1985 kvæntist Jón Atli Stefaníu Óskarsdóttur, stjórnmálafræðingi og dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Þau eiga tvo syni, Benedikt Atla (1991), sem er nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands, og Friðrik (2003) sem er nemi í Melaskóla.

Jón Atli er mikill plötusafnari og sérstakur áhugamaður um pönktónlist og rokk. Þá er Jón Atli mikill áhugamaður um íþróttir, bæði fótbolta (styður Fram og Man. City), hafnabolta og amerískan fótbolta.

Kristín Ingólfsdóttir, fráfarandi rektor, og Jón Atli Benediktsson, nýr rektor, að lokinni afhendingu tákns rektorsembættisins.