Skip to main content
12. maí 2015

Jarðvísindastofnun tekur nýjan örgreini í notkun

Jarðvísindastofnun Háskólans tók í dag í notkun nýjan örgreini (Electron Probe Microanalyzer, EPMA) við athöfn í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Tækið er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og mun m.a. nýtast til efnagreiningar á gosefnum.

Örgreinirinn er eins konar rafeindasmásjá með  efnagreiningabúnaði og á Jarðvísindastofnun verður hann einkum notaður til efnagreiningar á bergi. Hann mun einnig nýtast þeim sem þurfa nákvæmar efnagreiningar á fastefnum eða háskerpumyndgreiningu, t.d. í steingervingafræði, eðlisfræði, efnafræði, efnisfræði, örtækni, fornleifafræði, fiskifræði og fleiri greinum. Greinirinn mun því þjóna íslenska vísindasamfélaginu og þá munu iðnfyrirtæki einnig geta nýtt hann, t.d. til gæðaeftirlits við framleiðslu málma, örrása og hálfleiðara.

Meðal þess sem hægt er að efnagreina í örgreininum eru steindir, berg og gosaska, málmar og málmblöndur, keramik og gler og bein og skeljar. Hægt verður að efnagreina örsmá sýni sem eru allt niður í 0,01 mm í þvermál eða jafnvel smærri.

Með örgreininum má efnagreina gosösku nákvæmlega eftir að gos hefst. Efnagreining á gosefnum gefur vísbendingar um hegðun goss og til að túlka ratsjármyndir af öskuskýjum þarf nákvæma efnasamsetningu gosöskunnar. Flug getur legið niðri dögum saman í sprengigosum og því er ekki víst að hægt sé að fara með sýni til útlanda í efnagreiningu. Því má ljóst vera að örgreinirinn er öryggistæki fyrir Íslendinga og fyrir flug í Evrópu og á Norður-Atlantshafi enda mikilvægt að geta efnagreint gosösku fljótt eftir að gos hefst. 

Tækið kostaði tæpar 200 milljónir króna og fjölmargir aðilar studdu kaupin með fjárframlögum: Ríkissjóður Íslands, Háskóli Íslands, Jarðvísindastofnun, A.P. Møller og Hustru Chastine Mc-Kinney Møllers Fond til almene Formaal, Rannís, Eggertssjóður,Veðurstofan, Icelandair Group, Isavia, Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Orkustofnun.

Guðmundur Heiðar Guðfinnsson, fræðimaður við Jarðvísindastofnun og umsjónarmaður tækisins, kynnti það fyrir gestum í Öskju í dag.
Guðmundur Heiðar Guðfinnsson
Guðmundur Heiðar Guðfinnsson
Guðmundur Heiðar Guðfinnsson