Skip to main content
12. maí 2017

Íðorðanefnd hlaut styrk til eflingar íslenskri tungu

""

Nýlega hlaut íðorðanefnd í menntunarfræði styrk að upphæð 1.000.000 kr. úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur. Meginmarkmið sjóðsins er að efla íslenska tungu með styrkjum til sérverkefna á sviði íslenskra fræða innan Háskóla Íslands. Styrkurinn verður nýttur til að ráða starfsmann tímabundið sem undirbýr efni fyrir nefndarfundi og heldur utan um orðasafnið sem er aðgengilegt á netinu í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar undir heitinu Menntunarfræði.

Hlutverk íðorðanefndar er að taka saman orð og hugtök sem notuð eru á fræðasviðinu og gera aðgengileg með þýðingum og skilgreiningum í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar. Í því felst að samræma merkingu og notkun íðorða sem þegar eru í umferð, hafa frumkvæði að nýjum orðum eða bregðast við ákalli fræðimanna um heppileg íslensk orð fyrir ný hugtök sem efst eru á baugi. Í nefndinni sitja Gerður G. Óskarsdóttir, formaður, Helgi Skúli Kjartansson, Jón Ingi Hannesson, Ragnhildur Bjarnadóttir og Þuríður Jóhannsdóttir. Helga Jenný Stefánsdóttir hefur verið ráðin starfsmaður nefndarinnar og hefur aðstöðu á Menntavísindastofnun Háskóla Íslands.

Nefndin þiggur með þökkum ábendingar um skilgreiningar á hugtökum, nýjar þýðingar á orðum og óskir um ný íslensk orð og skilgreiningar. Erindum má beina til starfsmanns nefndarinnar á netfangið: helgastef@.hi.is.    

Nýlega hlaut íðorðanefnd í menntunarfræði styrk úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur. Á myndinni eru frá vinstri: Ragnhildur Bjarnadóttir, Helgi Skúli Kjartansson, Jón Ingi Hannesson, Gerður G. Óskarsdóttir og Þuríður Jóhannsdóttir.