Skip to main content
15. febrúar 2024

Icelandic Heritage in North America fær góðar viðtökur vestanhafs

Icelandic Heritage in North America fær góðar viðtökur vestanhafs - á vefsíðu Háskóla Íslands

Bókin Icelandic Heritage in North America hefur fengið afar góðar viðtökur í Bandaríkjunum og Kanada og meðal annars komist á lista yfir söluhæstu bækur hjá McNally/Robinson bókabúðinni í Winnipeg. Bókin kom út hjá University of Manitoba Press á síðasta ári og eru ritstjórar bókarinnar þau Birna Arnbjörnsdóttir, Höskuldur Þráinsson og Úlfar Bragason, prófessorar emeriti. Höfundar bókarinnar eru sextán, bæði íslenskir og erlendir, þar á meðal forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, sem rita formála. 

Ritstjórar bókarinnar hafa fylgt útgáfunni eftir með kynningum á Akureyri, í Mývatnssveit, Winnipeg og Gimli í Manitoba, Viktoríu í Bresku Kólumbíu í Kanada og í Wisconsin í Bandaríkjunum. Birna Arnbjörnsdóttir segir að bókinni hafi verið sérstaklega vel tekið og fundirnir vel sóttir. Það hafi sýnt sig að mikill áhugi sé á þessu umfjöllunarefni, ekki síst í Gimli þar sem fjöldi fólks hafi mætt til að hlýða á ritstjóra bókarinnar.

Bókin er safn greina sem lýsa niðurstöðum nýlegra íslenskra rannsókna á máli og menningarlegri sjálfsmynd fólks af íslenskum uppruna í Vesturheimi og þróun þeirrar íslensku sem enn er töluð þar vestra. Stór hluti efnis bókarinnar á rætur að rekja til viðamikillar vettvangsrannsóknar á íslensku sem erfðarmáli í Bandaríkjunum og Kanada á árunum 2013–2015 sem RANNÍS styrkti. Útgáfa bókarinnar naut stuðnings Sjóðs Páls Guðmundssonar.

Nánari upplýsingar um bókina á vef University of Manitoba Press.

Myndbandið hér að neðan var gert til að kynna bókina fyrir erlendum lesendum.

Kynningarfundur ritstjóra í Gimli í Kanada.