Skip to main content
24. nóvember 2016

Í sigurliði í samkeppni um sjálfbært borgarskipulag

""

Nemandi í umhverfisverkfræði við Háskóla Íslands var í sigurliði í norrænni samkeppni um sjálfbært borgarskipulag á vegum Nordic Sustainable Campus Network í Gautaborg sem fór fram 9.-12. október síðastliðinn.  

Þetta er í annað skipti sem keppnin er haldin en hún gengur út á að leiða saman nemendur með ólíkan bakgrunn og fá þá til að koma með hugmyndir að sjálfbærum lausnum í borgarskipulagi tiltekins svæðis. Í þetta sinn snerist verkefnið um að stuðla að uppbyggingu Lindholmen, sem er gamalt iðnaðarhverfi norðan megin við ána Göta älv, og skapa tengingu við miðbæ Gautaborgar.

Gunnhildur Gunnarsdóttir, meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði, og Sturla Sigurðarson, meistaranemi í umhverfisverkfræði, tóku þátt í samkeppninni fyrir hönd Háskóla Íslands en hópur þess síðarnefnda vann keppnina.

Sigurliðið lagði til að svæðið yrði tengt beint við miðbæinn með því að búa til eyju með almenningsgarði í ánni og brú með grænum samgöngum á milli Lindholmen og eyjunnar og svo áfram til miðbæjarins. Hópurinn var einnig með áætlanir um að viðhalda arfleifð Lindholmen og halda í núverandi iðnaðarkennileti en skipulagði jafnframt þétta og blandaða byggð ásamt grænum svæðum til að gera hverfið meira aðlaðandi. 

Hópur Gunnhildar ákvað að byrja á því að tengja aðliggjandi svæði við Lindholmen, gera hann að aðlaðandi íbúðarhverfi með atvinnurekstri og áhugaverðum viðkomustað fyrir utanaðkomandi gesti. Með þessu vildi hópurinn gera Lindholmen að miðpunkti nærliggjandi svæða áður en hann væri tengdur sérstaklega við miðbæinn. Þau lögðu áherslu á að halda í arfleifð svæðisins og byggja svæðið upp með iðnaðarsögu þess í huga og láta iðnaðarkennileiti halda sér. 

Sturla og Gunnhildur segja að eitt af því skemmtilegasta við að taka þátt í samkeppninni hafi verið að kynnast því hvernig fólk frá öðrum fagsviðum vinnur, en hópana skipuðu meðal annars arkitektanemar, nemendur úr borgarskipulagi, jarðfræðinemar og orkuverkfræðinemar. Sturla segir að það hafi verið ótrúlegt að sjá arkitektanemana búa til verulega faglegar og flottar glærur á örskömmum tíma og Gunnhildur tekur undir (sjá t.d. vinningsverkefnið). 

Þau segja að fólk hafi verið fljótt að finna sín hlutverk innan hópsins. Sturla segist hafa upplifað sig í hlutverki gagnrýnandans sem þurfti stundum að ná arkitektanemunum niður á jörðina þegar hugmyndir þeirra voru orðnar aðeins of háfleygar. Gunnhildur segir að hennar hlutverk hafi fljótlega þróast í að koma hugmyndunum í orð og setja þau fram skynsamlega. Hún bendir jafnframt á að eitt af því áhugaverða við að taka þátt í keppninni hafi verið að kynnast praktískri vinnu. Hún hafi getað notað þekkingu sína úr háskólanámi án þess að vísa alltaf til heimilda og það hafi henni þótt frelsandi. 

Gunnhildur Gunnarsdóttir, meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði, og Sturla Sigurðarson, meistaranemi í umhverfisverkfræði.
Mynd úr glærum
Mynd úr glærum
Gunnhildur Gunnarsdóttir, meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði, og Sturla Sigurðarson, meistaranemi í umhverfisverkfræði.
Mynd úr glærum
Mynd úr glærum