Skip to main content
5. apríl 2024

Hvernig skynja uglurnar umhverfið?

Hvernig skynja uglurnar umhverfið? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Uglur eru magnaðir fuglar og þeim fjölgar sem verða vör við þær í íslenskri náttúru. Þannig hagar nefnilega til að tvær tegundir þeirra verpa nú hér í auknum mæli, brandugla og eyrugla. Þegar uglur sitja í leit að bráð snúa þær gjarnan höfðinu til hliðanna og jafnvel virðist sem þær geti snúið því alveg aftur fyrir sig. Ein ástæðan fyrir þessum snúningi höfuðsins er sú að augun færast ekki til eins og Vísindavefur HÍ bendir á. 

„Uglan getur ekki hreyft augun með tilstuðlan augnvöðva líkt og til dæmis menn. Uglur þurfa þess vegna að snúa hausnum ef þær vilja líta til hliðar. Þess vegna hafa þær þróað með sér óvenjumikinn liðleika á hálsliðum. Í hryggjarsúlu ugla eru fjórtán hálsliðir, helmingi fleiri en hjá mannfólkinu, og það gerir þeim kleift að snúa höfðinu í allt að 270 gráður, en ekki í heilan hring eins og margir halda!“

En fyrir þau sem hafa augun á uglum, þá eru augun ekki allt, þótt þau séu algerlega mögnuð í þessum fuglum. 

„Það öðruvísi að horfa í augu uglunnar en flestra annarra fugla. Það er eitthvað varðandi augun sem dregur mann að sér,“ segir Gunnar Þór Hallgrímsson, prófessor í dýralíffræði í HÍ, sem hefur manna mest rannsakað þennan einstaka fugl hérlendis. 

Áður var talið að uglur hefðu einstaka sjón og ekki síst að næturlagi enda augun stór og tilkomumikil svo vægt sé til orða tekið. Litur augnanna er líka mjög afgerandi, útbreiddustu uglurnar hér hafa annars vegar gul augu og hins vegar appelsínugul. Fyrir þau sem komast nógu nærri uglum til að horfa í augu þeirra þá geta þær blikkað öðru auganu eftir hentugleika eða báðum samtímis. Til að greina þessar tvær tegundir í sundur þá eru augu eyruglunnar appelsínugul en augun í branduglunni eru gul. 

Það eru samt ekki bara augun sem uglurnar nota til að skynja umhverfi sitt og bráðina. „Uglurnar staðsetja bráð sína gjarnan í myrkri fremur út frá heyrn en sjón. Skermurinn sem við sjáum í andliti uglunnar er samansettur af afskaplega mjúkum fjöðrum sem mynda andlitið sjálft. Þar í kring er svo skermur úr hörðum fjöðrum. Hausinn á uglum er því eins og parabóla sem tekur við hljóðbylgjum. Þannig beina þær hljóðinu í umhverfinu að eyrunum sem eru staðsett mishátt í hauskúpunni eftir tegundum. Þessi skermur gefur uglunum þetta mjög svo sérstaka útlit og hann er hluti af háþróuðum skynfærum hennar.“   

Gunnar Þór Hallgrímsson með ugluunga í einum af rannsóknarleiðöngrum sínum.

Uglur veiða nagdýr og aðra fugla

Uglur á Íslandi nota skynfærin til veiða fyrst og síðast og auðvitað líka til að ferðast á milli staða og þær eru flökkudýr, ekki síst branduglan. Sami einstaklingur branduglu á  það þannig til að hafa þúsundir kílómetra á milli hreiðursstaða. Á Íslandi er fæðuframboð fyrir uglur líklega jafnara en víða annars staðar á svipuðum breiddargráðum. Gunnar Þór segir að báðar tegundir sem hér verpa, eyrugla og brandugla, sæki fremur í hagamýs þegar þær eru í boði en fúlsi ekki við fuglum þegar tækifæri gefst. 

„Hjá eyruglunni sjáum við greinileg jákvæð tengsl á milli þess hve mikið af músum er í fæðunni og því hversu vel þeim gengur í varpi og því má segja að mýsnar séu lykilfæða. Ekki er ljóst hversu miklu máli mýs skipta fyrir branduglur en vísbendingar eru um að smáfuglar séu stærri hluti af fæðu þeirra hérlendis en í nágrannalöndunum þar sem samkeppni við aðra ránfugla er meiri. Við höfum væntingar um að skilja betur þátt samkeppni í að móta samfélög dýra með því að nota uglurnar sem módeltegundir.“    

Eyruglan, sem hefur aukið varp sitt hér nokkuð, er um margt sérstakur fugl. Skógrækt hefur opnað fyrir möguleika hennar á að nema hér land og breiðast út en hún er fyrst og fremst skógarfugl. Erlendis nýtir eyruglan gjarnan yfirgefin hreiðursstæði frá skjórum, krákum og stundum hröfnum. Eyruglur finnast bæði í Evrópu og N-Ameríku en útlit þeirra hvort sínu megin Atlantshafsins er ólíkt. Allar eyruglur sem sést hafa á Íslandi bera einkenni evrópskra eyrugla en það er alls ekki útilokað að amerískar eyruglur geti einnig borist hingað til lands.

Ugla