Skip to main content
27. janúar 2015

Hvað má í rafrænu eftirliti?

Aukin rafræn vöktun og notkun eftirlitsmyndavéla í íslensku samfélagi er kveikjan að málþingi sem Mannréttindastofnun Háskóla Íslands stendur að ásamt Persónuvernd miðvikudaginn 28. janúar kl. 13:30-16:30 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins. Málþingið, sem fer fram á evrópska persónuverndardaginn, ber yfirskriftina „Rafrænt eftirlit - Hvað má og hvað ekki?“.

Með rafrænni vöktun er átt við vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði. Notkun eftirlitsmyndavéla og rafrænnar vöktunar hefur aukist bæði í starfsemi fyrirtækja og á vegum opinberra aðila, einkum í öryggis- eða löggæslutilgangi og hefur það vakið upp spurningar um hvort vegið sé að stjórnarskrárverndaðri friðhelgi einkalífs og persónuvernd þeirra sem eftirlitinu sæta.

Á málþinginu munu fulltrúar frá Persónuvernd, samtökum bæði launþega og atvinnurekenda, lögreglunni, fyrirtæki í upplýsingatækni, Veðurstofunni og Seltjarnarnesbæ taka til máls og fjalla um rafrænt eftirlit frá ólíkum sjónarhornum, kostum þess og göllum og hvaða skorður því eru settar samkvæmt lögum og reglum. Fundarstjóri er Björg Thorarensen, formaður stjórnar Persónuverndar og prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands.

Málþingið er öllum opið og aðgangur ókeypis en nánari upplýsingar um efni þess má finna á viðburðavef Háskóla Íslands.