Skip to main content
13. mars 2017

Hvað á húsið að heita?

""

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Hugvísindasvið Háskóla Íslands efna til samkeppni um nafn á nýbyggingu erlendra tungumála sem verður vígð við hátíðlega athöfn á sumardaginn fyrsta hinn 20. apríl næstkomandi. Verðlaunum er heitið fyrir bestu tillöguna (Berist fleiri en ein tillaga um verðlaunanafnið verður dregið um hver skuli hljóta verðlaunin). Tillögum skal skilað inn á vefnum hvaðáhúsiðaðheita.hi.is og frestur til þess rennur út mánudaginn 20. mars.

Byggingin mun hýsa Vigdísarstofnun – alþjóðlega miðstöð tungumála og menningar sem mun starfa undir merkjum UNESCO. Þar verður starfrækt fræðslu- og upplifunarsetur og í húsinu er aðstaða fyrir fyrirlestra-, ráðstefnu- og sýningarhald, vinnuaðstaða fyrir erlenda gestafræðimenn og fyrir kennslu og rannsóknir í erlendum tungumálum. Þar verður einnig Vigdísarstofa, tileinkuð Vigdísi Finnbogadóttur, þar sem hægt verður að fræðast um líf hennar og störf. Fjölmargir innlendir og erlendir aðilar hafa stutt verkefnið með myndarlegum fjárframlögum.

Nýbygging fyrir Vigdísarstofnun