Skip to main content
27. febrúar 2024

Húsið ofan á Grillinu á Sögu alls ekki varanlegt 

Húsið ofan á Grillinu á Sögu alls ekki varanlegt  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ein vinsælasta sena íslenskrar kvikmyndasögu gerist á Grillinu gamla á Hótel Sögu þar sem sögupersónur Einars Más Guðmundssonar úr skáldverkinu Englar alheimsins mæta með leyfi frá Kleppsspítala til að fara í jarðarför. Þeir Palli, Óli og Viktor láta ekki sjá sig í útförinni en halda þess í stað á Grillið og panta allt það dýrasta sem þeir finna á matseðlinum. Þegar kemur að því að gera reiningsskil við þjóninn segir Viktor eina frægustu setningu sem hljómað hefur í íslenskri bíómynd: „Við erum allir vistmenn á Kleppi. Verið svo vinsamlegir að hringja á lögregluna strax.“

Viktor, sem leikinn er af Birni Jörundi Friðbjörnssyni tónlistarmanni, brosir angurvært með risastóran vindil nærri vörunum og bætir svo við: „Þetta var ákaflega ánægjuleg máltíð! Við getum vel hugsað okkur að koma aftur.“

Englar Alheimsins

Hin fræga sena úr kvikmyndinni Englar alheimsins.

Einar Már skrifaði handritið að kvikmyndinni en Friðrik Þór Friðriksson leikstýrði henni og hefur hún unnið sér sess hjá þjóðinni á svipaðan hátt og skáldsagan. 

Englar Alheimsins2

Önnur sena í myndinni er tekin á tröppunum fyrir framan Aðalbyggingu HÍ.

Grillið var lengi rómað fyrir gæði í mat og mikinn lúxus með útsýni yfir sundin blá og borgina alla og þar hafa sest að snæðingi nokkrar af skærustu stjörnum listasögunnar sem áttu náttstað á hótelinu. Nú er Grillið orðið partur af Háskóla Íslands eins og flestir vita.  Margir sem eiga leið um Vesturbæinn og Melana hafa rekið augun í mikið hús í undarlegum stíl sem liggur eins og mara ofan á Sögu og hefur eiginlega étið Grillið með gleri og stáli. 

Það hafa jafnvel borist fyrirspurnir til HÍ um hvort þetta nýja furðurhús eigi varanlegan samastað á þaki Sögu. 

„Nei, alls ekki,“ segir Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs við Háskóla Íslands og brosir í kampinn. „Það er verið að endurbyggja Grillið í upphaflegri mynd. Til þess að hægt væri að vinna að þessu í vetur var nauðsynlegt að byggja skýli yfir Grillið svo hægt væri að athafna sig óháð veðri og vindum.“

Kristinn segir að það hafi komið mönnum mjög á óvart hversu lélegur efniviður hafi verið notaður við byggingu Grillsins en nú sé verið að ráða bót á því. 

Þegar FS vígði þann hluta Sögu sem helgaður er stúdentagörðum mætti Einar Már Guðmundsson galvaskur og gekk um húsakynnin sem höfðu þá tekið miklum breytingum en í norðurálmu eru m.a. híbýli fyrir stúdenta Háskóla Íslands. 

Söguleg sena í Grillinu

Vindum okkur aftur í bíómyndina Englar alheimsins. Ófáir eru á því að þjónninn á Grillinu sé talsverður senuþjófur í þessum fræga myndkafla þegar þrímenningarnir matast frítt og reykja að lokum stóra Havanavindla í miklum makindum. Þjónninn vindur önugur upp á sig og lætur það snarlega eftir óskum Viktors og félaga að hringja á lögregluna. Þessi þjónn er leikinn af Jóni St. Kristjánssyni sem hefur unnið sér það til frægðar að þýða fjölda bóka af listfengi og fékk Íslensku þýðingarverðlaunin árið 2020. 

Einar Már

Einar Már Guðmundsson rithöfundur ásamt fleiri gestum við vígslu Stúdentagarða á Sögu í fyrra. MYND/Kristinn Ingvarsson

Þegar FS vígði þann hluta Sögu sem helgaður er stúdentagörðum mætti Einar Már Guðmundsson galvaskur og gekk um húsakynnin sem höfðu þá tekið miklum breytingum en í norðurálmu eru m.a. híbýli fyrir stúdenta Háskóla Íslands. 

Einar Már Guðmundsson er reyndar tengdur bæði FS og HÍ að því leyti að hann er í hópi þeirra tæplega 80 þúsund einstaklinga sem hafa brautskráðst frá HÍ. Rithöfundurinn nam bæði bókmenntir og sagnfræði við Háskóla Íslands og lauk héðan BA-prófi árið 1979. 

Saga

Unnið er að endurbótum á hinum fornfræga Súlnasal. MYND: Kristinn Ingvarsson

Allt á fullu á Sögu

Menntavísindasvið mun eiga höfuðstöðvar sínar á Sögu. Þegar svipast er um inni á Sögu núna, þar sem stórstjörnurnar Louis Amstrong, Ella Fitzgerald og Dionne Warwick  gengu eitt sinn um ganga, er allt á fullu og iðnaðarmenn vinna af miklu kappi. Framkvæmdum miðar enda ágætlega að mati Kristins, sviðsstjóra framkvæmda hjá HÍ. Louis Armstrong er reyndar ekki eini Armstronginn sem hefur haft Sögu að næturstað því geimfarinn Neil Armstrong lenti þar áður en hann lenti á tunglinu. 

Kristinn

Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs HÍ. MYND/Kristinn Ingvarsson

„Tímaramminn er knappur en stefnt er að flutningi Menntavísindasvið núna í haust,“ segir Kristinn. „Framkvæmdir eru langt komnar með starfsmannaðstöðuna á 5. til 7. hæð. Nú er verið að hefjast handa við uppbygging á öðrum hæðum og á ljósgörðum fyrir neðstu hæðina.“

Kristinn segir að gert sé ráð fyrir að flutningar Menntavísindasviðs hefjist síðla sumars og standi fram eftir hausti. „Það á eftir að koma betur í ljós nú á næstu vikum hve langt við komumst með frágang innan húss. Það er t.d. líklegt að það verði ekki búið að ljúka við innréttingu kennslustofa fyrir sérgreinar fyrir þann hluta sem nú er í Skipholti í haust en við sjáum til.“

Menn að vinnu við endurbætur á Grillinu.