Skip to main content
6. mars 2017

Hugvísindaþing 2017

""

Hugvísindaþing 2017 verður haldið 10. og 11. mars í Háskóla Íslands og verður boðið upp á um 150 fyrirlestra í 42 málstofum. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytur hátíðarfyrirlestur við setningu þingsins í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 12. Erindi sitt nefnir hann Þjóðin og fræðin. Nokkur orð um tilvistarvanda sagnfræðings sem varð forseti.

Á dagskrá þingsins eru rótgróin rannsóknasvið hugvísinda, eins og saga lands og þjóðar, bókmenntaarfurinn, trúin og tungumálið, en sömuleiðis mál sem brenna á samtímanum. Kyngervi, ofbeldi, mismunun, mannréttindi, fjölmiðlar, uppljóstrarar, þöggun, dýravelferð, umhverfið, allt ber þetta á góma á þinginu í ár – og meira til.

Dagskrá þingsins er kynnt á vefsíðu þess og kynning á málstofum hefur einnig farið fram á Fasbókarviðburði þingsins og Twitter.

Hugvísindaþing var fyrst haldið árið 1996 og hefur verið árviss viðburður frá 1999. Þingið er ætlað fræðasamfélaginu jafnt sem almenningi og er öllum opið.

Hugvísindum er ekkert mannlegt óviðkomandi og býður alla sem áhuga hafa velkomna.

Guðni Th. Jóhannesson