Skip to main content
11. september 2015

Hjólað í fylgd sérfræðinga um heilsu og næringu

Hjólreiðamenning á Íslandi hefur tekið stakkaskiptum á síðustu árum og sífellt fleiri nýta hjólið sem sinn farskjóta. Aðrir nota hjól sérstaklega til hreyfingar og heilsubótar og enn aðrir sem góða leið til að sameina fjölskylduna í útiveru. Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands leggja sitt af mörkum í þessari nýju bylgju og bjóða til skemmtilegrar fræðsluferðar um hjólastíga borgarinnar laugardaginn 12. september kl. 11 í fylgd með þeim Önnu Sigríði Ólafsdóttur, dósent í næringarfræði, og  Erlingi S. Jóhannssyni, prófessor í íþrótta- og heilsufræði. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

Hist verður á hjólum við Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, kl. 11 á laugardagsmorgun þaðan sem haldið verður út á hjólastíga borgarinnar. Áð verður á nokkrum stöðum á leiðinni og þar munu Erlingur og Anna Sigríður miðla af þekkingu sinni. Erlingur mun m.a. fjalla um mikilvægi reglulegrar hreyfingar og hvernig best er að haga málum þegar ætlunin er að taka upp reglubundnar hjólreiðar og Anna Sigríður segir okkur hvers konar næring er best fyrir og meðan á hjólreiðaferðum stendur ásamt því að leiðbeina um fæðuval í tengslum við hreyfingu almennt. Í lok ferðar verður farið yfir hvaða teygjur henta að loknum góðum hjólatúr.

Áætlað er að ferðin taki um tvær klukkustundir og er hún farin í samstarfi við Ferðafélag barnanna, undirdeild Ferðafélags Íslands. Öll fjölskyldan getur því gert sér glaðan dag og ekki er verra að taka með sér hollan nestisbita í ferðina.

Hjólaferðin er liður í samstarfi Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands sem staðið hefur yfir allt frá árinu 2011 undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna háskólans blandast saman í áhugaverðum ferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Alls eru ferðirnar sjö talsins á árinu 2015 og er hjólaferðin á laugardag sú síðasta.

Anna Sigríður Ólafsdóttir, Erlingur Jóhannsson og hjól.
Anna Sigríður Ólafsdóttir, Erlingur Jóhannsson og hjól.