Skip to main content
5. október 2016

HÍ og Reykjavíkurborg opna HÖFÐA Friðarsetur

""

Starfsemi HÖFÐA Friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands hefst formlega föstudaginn 7. október nk. næstkomandi með athöfn í Höfða og opnu málþingi í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, flytur upphafsávarp málþingsins sem hefst kl. 13:00. Á málþinginu verður sjónum beint að hlutverki borga, smáríkja og borgara í að stuðla að friði og mikilvægi upplýstrar og lýðræðislegrar samræðu í nútímasamfélagi. Þá verður fjallað sérstaklega um áhrifamátt miðlunar og hvernig kvikmyndir geta haft áhrif til breytinga í heiminum. Meðal þátttakenda má nefna Steve Killelea, sem er upphafsmaður Global Peace Index, Anniku Bergman Rosamond frá Háskólanum í Lundi, Melanie Greenberg frá Alliance for Peacebuilding, kvikmyndaleikstjórann Darren Aronofsky og Obaiduh Zytoon sem hlotið hefur fjölda viðurkenninga fyrir heimildamynd sína The War Show. Hér má nálgast dagskrá málþingsins. 

Fjallað um arfleifð Höfðafundarins 1986

Daginn eftir stendur HÖFÐI Friðarsetur fyrir sínu fyrsta málþingi, í samstarfi við utanríkisráðuneytið, þar sem fjallað verður um arfleifð leiðtogafundarins í Höfða í tilefni af því að 30 ár eru liðin frá þeim merka atburði. Málþingið fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands laugardaginn 8. október frá kl. 15:00 - 17:30. Frummælendur eru frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Albert Jónsson sendiherra og Silja Bára Ómarsdóttir, aðjunkt við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Þá er sérstök athygli vakin á því að aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-Moon, mun ávarpa fundargesti í lok málþings. 

HÖFÐI Friðarsetur starfar innan Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands en setrið er vettvangur fyrir þverfaglegt og alþjóðlegt samstarf með áherslu á hlutverk borga, smáríkja og almennra borgara í að stuðla að friði, friðarmenningu og friðarfræðslu. Reykjavíkurborg hefur lagt áherslu á mannréttindi og friðarstarf og því er stofnun HÖFÐA Friðarseturs liður í því að styrkja Reykjavík sem borg friðar. Stór þáttur í starfsemi setursins felst einnig í því að efla rannsóknir á friðar- og öryggismálum og koma á fót námsbraut í átaka- og friðarfræðum við Háskóla Íslands.

Sumarnámskeið fyrir börn á vegum HÖFÐA Friðarseturs

Fjöldi verkefna er fram undan á fyrsta starfsári HÖFÐA Friðarseturs en þar má t.d. nefna úttekt og aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu í borginni sem nýtt verður til að stuðla að vitundarvakningu á málefninu. Eitt af helstu verkefnum setursins verður að koma á fót sumarnámskeiði fyrir börn af ólíkum uppruna sem haldið verður í fyrsta sinn sumarið 2017. Með því að efla færni barna í að greina og leysa úr átökum á friðsamlegan hátt er hægt að vinna markvisst að því langtímamarkmiði að byggja upp friðarmenningu, sem síðar mun skila sér út í samfélagið. 

Með stofnun HÖFÐA Friðarseturs gefst Alþjóðamálastofnun færi á að víkka út rannsóknarsvið stofnunarinnar og mun í framhaldinu beina sjónum í auknum mæli að þeim áskorunum sem nútímasamfélög standa frammi fyrir, eins og aukinni þjóðernishyggju og lýðskrumi í samfélagsumræðu, loftslagsbreytingum og málefnum flóttamanna. HÖFÐI Friðarsetur kemur til með að standa fyrir opnum fundum innan Háskóla Íslands þar sem umræða um hlutverk borga, smáríkja og almennra borgara í að stuðla að friði og friðarmenningu verður í brennidepli. Einnig mun Alþjóðamálastofnun standa fyrir árlegri ráðstefnu í samstarfi við innlenda og erlenda samstarfsaðila um þau mál sem eru efst á baugi innan rannsóknasviða stofnunarinnar hverju sinni. 

Höfði
Höfði