Skip to main content
18. janúar 2017

Hefja nám við Jafnréttisskóla Háskóla Sþ

Nemendahópurinn sem hóf nám við Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna (United Nations University Gender Equality Studies and Training Programme, UNU-GEST) á vormisseri er sá stærsti til þessa. Nemendurnir sem eru 18 talsins eru sérfræðingar og háskólanemendur sem starfa að jafnréttismálum í heimalöndum sínum. Þeir koma frá tólf löndum: Eþíópíu, Malaví, Mósambík, Palestínu, Líbanon, Úganda, Írak, Afganistan, Sómalíu, Nígeríu, Jamaíku og Túnis.

Jafnréttisskólinn er samstarfsverkefni Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytisins sem fjármagnar skólann að stærstum hluta. Skólinn er þáttur í þróunarsamvinnu Íslands með sama hætti og þrír aðrir skólar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi: Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn og Landgræðsluskólinn. 

Markmið Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna er að stuðla að jafnrétti kynjanna með menntun, námskeiðum og rannsóknum, einkum í þróunarlöndum og á átakasvæðum. Starfið hefur að leiðarljósi að jafnrétti kynjanna sé grundvallarmannréttindi og stuðli að sjálfbærni samfélaga.

Námið er þverfaglegt og felst bæði í miðlun fræðilegrar og hagnýtrar þekkingar. Nemendur fá þjálfun í verkefnisstjórnun og kynjaðri hagstjórn en þeir leggja einnig stund á nám í kenningum og aðferðum á fræðasviðinu. Í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er lögð áhersla á jafnrétti og valdeflingu kvenna. Sérstök námslota snýr að jafnréttissjónarmiðum við friðaruppbyggingu í samræmi við ályktun öryggisráðs Sþ nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Loks er sjónum beint að samþættingu kynjasjónarmiða í umhverfismálum og við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.

Jafnréttisskólinn rekur 20 vikna diplómanám (30 ECTS) í alþjóðlegum jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands sem fer fram ár hvert á vormisseri en alls hafa 68 nemendur útskrifast frá því hann hóf starfssemi sína árið 2009.   

Nemendur Jafnréttisskólans við aðalbyggingu Háskóla Íslands
Nemendur Jafnréttisskólans við aðalbyggingu Háskóla Íslands