Skip to main content
5. maí 2016

Háskólalestin á Vestur- og Norðvesturlandi í maí

""

Vindmyllusmíði, efnafræði, vísindaheimspeki, stjörnufræði og japanska er meðal þeirra námskeiða sem í boði verða í eldri bekkjum Auðarskóla og Grunnskólans að Reykhólum þegar Háskólalestin heimsækir Búðardal dagana 6. og 7.maí. Einnig verður öllum heimamönnum boðið í fjöruga Vísindaveislu í félagsheimilinu Dalabúð. Háskólalestin sækir heim þrjá áfangastaði til viðbótar í maímánuði, Blönduós, Stykkishólm og Voga á Vatnsleysuströnd.

Þetta er sjötta árið í röð sem Háskólalest Háskóla Íslands brunar um landið með fjör og fræði fyrir alla aldurshópa en hún hefur fengið fádæma góðar viðtökur á þeim 26 stöðum sem sóttir hafa verið heim frá árinu 2011. 

Fyrsti áfangastaður Háskólalestarinnar í ár er sem fyrr segir Búðardalur en þar munu kennarar og nemendur úr Háskóla Íslands taka að sér kennslu í eldri bekkjum í Auðarskóla og Grunnskóla Reykhóla föstudaginn 6. maí. Í boði verða valin námskeið úr Háskóla unga fólksins. 

Daginn eftir, laugardaginn 7. maí, verður slegið upp veglegri vísindaveislu í Dalabúð fyrir heimamenn á öllum aldri. Þar verða alls kyns tilraunir, þrautir og tæki sem gestir geta kynnst og prófað, stjörnutjald, efnafræðisýning Sprengju-Kötu og fjölmargt fleira. Ókeypis aðgangur og allir velkomnir. 

Áætlun Háskólalestarinnar í maí 2016

6. og 7. maí - Búðardalur

13. og 14. maí - Blönduós

20. og 21. maí - Stykkishólmur

27. maí – Vogar

Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á vef hennar og Facebook-síðu.

Nemendur í Háskólalestinni
Nemendur í Háskólalestinni