Skip to main content

Háskólabrú á ensku í fyrsta sinn á Íslandi

31. júl 2017

Næsta haust verður í fyrsta sinn hægt að leggja stund á nám í Háskólabrú Keilis á ensku. Er þetta hugsað til þess að koma til móts við þá aðila sem búa á Íslandi með annað móðurmál en íslensku eða erlenda aðila á Íslandi sem hafa áhuga á að komast að í íslenskum háskólum. Það hefur verið töluvert um fyrirspurnir og óskir um slíkt frumgreinanám á undanförnum árum og hefur Keilir því tekið þessa ákvörðun. Námið hefst 1. október næstkomandi og tekur tvö ár þar sem kennt er í fjarnámi. Það verður þannig hægt að taka námið með vinnu.

Fyrstu nemendur Háskólabrúar Keilis hófu nám haustið 2007 og starfar skólinn í samstarfi við Háskóla Íslands. Miklar framfarir hafa orðið á þessum tíma í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda, og hefur Keilir brugðist við með því að innleiða nýjungar í kennsluháttum og fjölbreyttari fyrirkomulag námsins. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu. Allt miðast þetta við að nemandinn geti tekið námið á sínum forsendum.

Keilir hefur markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur þar sem kennsluhættir miða við þarfir fullorðinna nemenda. Á þeim tíu árum sem boðið hefur verið upp á aðfaranám til háskóla í Keili, hafa á bilinu 150 til 200 nemendur útskrifast árlega úr stað- og fjarnámi Háskólabrúar. Samtals hafa þannig fleiri en 1.500 einstaklingar lokið náminu og hefur mikill meirihluti þeirra (um 85%) haldið áfram í háskólanám, flestir við Háskóla Íslands.

Háskólabrú Keilis