Skip to main content
16. febrúar 2021

Hagþenkir tilnefnir bækur fræðimanna Háskólans

Hagþenkir tilnefnir bækur fræðimanna Háskólans - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þrír fræðimenn Háskóla Íslands hafa verið tilnefndir til viðurkenningar Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, fyrir verk gefin út á liðnu ári. Þetta eru þau Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor emeritus í íslenskum bókmenntum, Gísli Pálsson, prófessor emeritus í mannfræði og Leó Kristjánsson, jarðeðlisfræðingur og vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sem lést í fyrra.

Bergljót var tilnefnd til viðurkenningar Hagþenkis fyrir bókina Fræðaskjóða. Bókmenntafræði fyrir forvitna sem Sæmundur og Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands gáfu út. Í umsögn valnefndar segir að bókin sé mikill fengur fyrir áhugafólk um bókmenntir, í henni sé ítarleg og skemmtileg umfjöllun um bókmenntafræði og hugtök skýrð á nýstárlegan hátt með mýmörgum dæmum.

Gísli var tilnefndur fyrir bókina Fuglinn sem gat ekki flogið sem Mál og menning gaf út. Í umsögn valnefndar segir: „Læsileg og þörf bók þar sem hugmyndin um útrýmingu og endalok dýrategundar er skoðuð frá óvenjulegu sjónarhorni.“ Bók Gísla var jafnframt tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis.

Leó Kristjánsson er tilnefndur með syni sínum, Kristjáni Leóssyni, sem starfaði sem vísindamaður hjá eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands á árunum 2005-2014. Tilnefninguna hljóta þeir fyrir bókina Íslenski kristallinn sem breytti heiminum sem Mál og menning gefur út. Í umsögn valnefndar segir að bókin sé fróðlegt ferðalag um eðlisfræðisögu ljóssins og mikilvægt hlutverk silfurbergs frá Íslandi í henni. 

Hagþenkir tilnefndi tíu bækur til viðurkenningarinnar sem verður veitt um miðjan mars.

Bergljót Kristjánsdóttir, Gísli Pálsson og Leó Kristjánsson.