Skip to main content
6. nóvember 2015

Greinar nema í íþrótta- og heilsufræði í Læknablaðinu

Meistaranemar íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands hafa fengið fimm vísindagreinar birtar í Læknablaðinu það sem af er ári. Rannsóknirnar snerta afar fjölbreytt viðfangsefni.

Í 11. tölublaði Læknablaðsins, sem kom út miðvikudaginn 4. nóvember, er að finna tvær rannsóknargreinar sem þær Fríða Dröfn Ammendrup og  Kristjana Sturludóttir, meistaranemar í íþrótta- og heilsufræði, rita. Fjallar önnur um áhrif hjartaendurhæfingar en hin m.a. um áhrif hreyfiíhlutunar á einkenni geðklofa og andlega líðan hjá ungu fólki.

Í síðasta tölublaði Læknablaðsins birtist einnig grein sem Margréti H. Indriðadóttir ritaði en hún lauk meistaranámi í íþrótta- og heilsufræði sl. vetur. Þar fjallar Margrét um tíðni íþróttameiðsla hjá ungmennum. 

Greinarnar þrjár er hluti af meistaraprófsritgerðum þessara nemenda. Fyrr á þessu ári voru tvær vísindagreinar til viðbótar, sem byggja á rannsóknarverkefnum framhaldsnema í íþrótta- og heilsufræði, birtar í Læknablaðinu. 

Rúmlega þrjátíu 30 rannsóknargreinar eru birtar árlega í blaðinu og því er árangur framhaldsnema og vísindamanna í íþrótta- og heilsufræði og mjög athyglisverður. Að birta niðurstöður rannsókna í virtum vísindatímaritum undirstrikar faglega og sterka stöðu náms og rannsókna í íþrótta- og heilsufræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.   

Nánar um nýjustu rannsóknirnar:

11. tölublað Læknablaðsins 

Áhrif hjartaendurhæfingar HL-stöðvarinnar eftir kransæðahjáveituaðgerð eða annað kransæðainngrip

Fríða Dröfn Ammendrup, Mundína Ásdís Kristinsdóttir, Gunnar Guðmundsson, Erlingur Jóhannsson 

Stutt lýsing: Hjartaendurhæfing er mikilvæg meðferð hjá sjúklingum með kransæðasjúkdóma. Þátttakendur sem stunduðu reglubundna og markvissa hreyfingu bættu þrek, líkamlega vellíðan og lífsgæði. Magn og umfang þjálfunar hefur mikil áhrif á bætingu í þreki, en aldur þátttakenda skiptir hér ekki máli.

Áhrif hreyfiíhlutunar á einkenni geðklofa, andlega líðan og líkamssamsetningu hjá ungu fólki

Kristjana Sturludóttir, Sunna Gestsdóttir, Rafn Haraldur Rafnsson, Erlingur Jóhannsson

Stutt lýsing: Niðurstöður benda til þess að íhlutun sem þessi sé gagnleg fyrir unga einstaklinga með geðklofa. Þátttakendur hreyfðu sig meira, þeir þyngdust ekki og leið betur andlega að lokinni íhlutun. Regluleg hreyfing og leiðsögn um heilbrigðan lífsstíl gætu verið áhrifarík viðbót viðmeðferð einstaklinga með alvarlega geðsjúkdóma.

10. tölublað Læknablaðsins

Algengi íþróttameiðsla, íþróttaþátttaka og brottfall vegna meiðsla hjá 17 og 23 ára ungmennum 

Margrét H. Indriðadóttir, Þórarinn Sveinsson, Kristján Þór Magnússon, Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Erlingur Jóhannsson

Frá Stakkahlíð
Frá Stakkahlíð