Skip to main content
20. maí 2016

Góðir kennarar skipta sköpum

""

Menntavísindasvið Háskóla Íslands stendur um þessar mundir fyrir kynningarátakinu „Hafðu áhrif“ þar sem almenningi gefst kostur á tilnefna eftirminnilega kennara. Átakinu var fyrst hrint af stað fyrir tveimur árum við afar góðar undirtektir. Að sögn Jóhönnu Einarsdóttur, forseta Menntavísindasviðs, var umræða um störf kennarar afskaplega neikvæð á þeim tíma. „Við vildum snúa vörn í sókn og vekja athygli á því jákvæða og skemmtilega við kennarastarfið og fá fólkið í landinu í lið með okkur. Þessu var mjög vel tekið og fólk var duglegt að benda á góða kennara. Það sama er upp á teningnum í ár en nú þegar hafa yfir 700 tilnefningar borist,“ segir Jóhanna og fagnar viðtökunum.

Hvað einkennir góða kennara?

Flestir hafa eflaust einhverjar hugmyndir um hvað einkennir góðan kennara. Gildir þá einu hvort þær hugmyndir byggist á faglegu sjónarmiði eða einskorðist við persónulegar skoðanir. Aðspurð hvort það séu sérstakir þættir sem einkenni góða kennara bendir Jóhanna á nýlega skýrslu OECD þar sem leitað var svara við þessari spurningu og farið yfir rannsóknir á því efni. „Þekking á námsgreininni sem kenna skal er einn þeirra þátta sem nefndir eru sem og menntunarfræðileg þekking. Þar er m.a. átt við þekkingu á kennsluaðferðum og leiðum til að skipuleggja og meta nám og kennslu. Góðir kennarar hafa einnig kunnáttu og metnað til að hvetja nemendur til dáða og mæta þörfum, áhuga og þroska hvers og eins. Auk þess einkenna eldmóður, ástríða fyrir viðfangsefninu og virðing fyrir nemendum góða kennara.“ 

Á vef átaksins segja þjóðþekktir einstaklingar frá þeim kennurum sem hafa haft áhrif á líf þeirra og störf í stuttum myndböndum. „Það sem fram kemur í sögum þessara einstaklinga er fyllilega í samræmi við niðurstöður OECD-skýrslunnar. Þar er m.a. bent á að góðir kennarar vekja áhuga á námsefninu og nota fjölbreyttar leiðir til að ná til nemenda. Margir nefna einnig mikilvægi hróss og hvatningar og að góðir kennarar hjálpi nemendum að finna hæfileika sína og styrkleika,“ bætir hún við en almennt virðist fólk vera nokkuð samhljóma.

Hvers virði eru góðir kennarar?

Kennarar gegna lykilhlutverki í menntun nemenda og gæði menntunar standa og falla með þeim. En hvers virði eru góðir kennarar fyrir samfélagið?  „Menntakerfið er grunnur allrar framþróunar í samfélaginu. Vel menntaðir kennarar geta skipt sköpum fyrir lífshlaup og velferð einstaklinga,” segir Jóhanna að endingu og hvetur landsmenn til að taka þátt í átakinu en hægt er að senda inn tilnefningar til 23. maí nk.

Framúrskarandi kennurum verða veitt verðlaun fyrir störf sín þann 1. júní nk. við Háskóla Íslands.

Kennaranemi í vettvangsnámi - sviðsett
Kennaranemi í vettvangsnámi - sviðsett