Skip to main content
20. ágúst 2015

Gengið á slóðum mótmæla og fangelsa í miðbænum

Aðbúnaður fanga og afbrot á fyrri öldum og mótmæli í miðborginni verða í brennidepli í göngu sem Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands standa fyrir á Menningarnótt, laugardaginn 22. ágúst kl. 11. Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, og Guðni Th. Jóhannesson, dósent við Sagnfræði- og heimspekideild skólans, leiða gönguna þar sem meðal annars verður áð við gömul fangelsi og andi NATO-mótmælanna 1949 verður fangaður.

Gangan er liður í samstarfi háskólans og Ferðafélagsins undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“ sem staðið hefur allt frá árinu 2011. Gangan er öllum opin og ókeypis.

Safnast verður saman kl. 11 við gamla fangageymslu í hjarta borgarinnar, sjálft Stjórnarráðshúsið. Þar mun Helgi fjalla um tildrög þess að Danir byggðu þetta glæsilega hús. „Byggingin var svar Dana við ástandinu á Íslandi í lok 18. aldar en þá ríkti mikið harðræði í landinu og þjófnaðaralda flæddi yfir sveitir landsins og stórbændur urðu illilega fyrir barðinu á henni. Danir vildu ekki fá brotamennina til sín og sýslumenn vildu ekki vista þá hjá sér. Danir reistu því þessa veglegu byggingu sem hýsti brotamenn í nokkra áratugi áður en húsið var tekið til notkunar í önnur stjórnsýsluverkefni,“ segir Helgi sem mun einnig fjalla um refsipólitík þessa tíma, hvaða hugmyndir stjórnvöld höfðu um afbrot og refsingar.

Aðspurður segir Helgi ýmsar heimildir til um aðbúnað og stöðu fanga á þessum tíma, þar á meðal doktorsritgerð Björns Þórðarsonar, Refsivist á Íslandi 1761-1925, og sömuleiðis úttekt landlæknis á föngum í lok 18. aldar. Sömu brotaflokkar komu þá við sögu og nú en ýmsir hafa bæst við. „Þetta voru mikið til auðgunar- og ofbeldisbrot sem fangar sátu inni fyrir í lok 18. aldar. Fangar sitja inni fyrir sams konar brot í dag en fíkniefnin hafa bæst við. Tæpur þriðjungur fanga í dag situr inni fyrir fíkniefnabrot,“ bendir Helgi á. 

Göngunni lýkur við Hegningarhúsið við Skólavörðustíg en byggingin hefur gegnt hlutverki fangelsis í yfir 140 ár. En áður en þangað er haldið verður hins vegar komið við á nokkrum stöðum í miðborginni þar sem efnt hefur verið til mótmæla á síðustu árum og áratugum. Þar mun Guðni Th. Jóhannesson miðla þekkingu sinni. Hann bendir á að Menntaskólinn í Reykjavík, sem áður hét Lærði skólinn, sé tengdur tveimur þekktum „mótmælum“. Annars vegar Pereati eða uppreisn skólapilta gagnvart rektor skólans, Sveinbirni Egilssyni, árið 1850 og hins vegar frægum þjóðfundi danskra yfirvalda ári síðar en þar andmæltu Jón Sigurðsson og samstarfsmenn hans yfirgangi Dana með hinum fleygu orðum: „Vér mótmælum allir.“

Áhersla Guðna í göngunni verður þó fyrst og fremst á mótmæli síðustu áratugi, þar á meðal hörð mótmæli á Austurvelli um miðja síðustu öld. „Ég vona að fólk fái einhverja tilfinningu fyrir því hvernig það var að standa t.d. á Austurvelli 30. mars 1949 og mótmæla aðild Íslands að NATO, nú eða að búa sig undir að berjast við mótmælendur á vellinum,“ segir Guðni.

Aðspurður hvort íslensk mótmæli síðustu áratuga skeri sig á einhvern hátt frá mótmælum í nágrannaríkjum segir Guðni flestar mótmælaaðferðir innfluttar: „Það þótti nýmæli hér þegar aðgerðasinnar tóku að hlekkja sig við vinnuvélar og mótmæla þannig virkjanagerð og stóriðju. Svoleiðis aktívismi var innfluttur og líka sá siður að berja á potta og pönnur í búsáhaldabyltingunni; það lærðum við að af blóðheitum íbúum Rómönsku-Ameríku. En Íslendingar eiga einmitt að hafa orð á sér fyrir að vera seinþreyttir til vandræða, ekki eins tilfinningaheitir og íbúar sunnar á hnettinum. Þetta sýnir þó bara kannski hvað það er vitlaust að setja svona allsherjar merkimiða á eins flókin og margbreytileg fyrirbæri og þjóðir eru. Þegar allt kemur til alls er enginn eins og fólk er flest,“ segir Guðni glettinn. 

Sem fyrr segir munu Helgi og Guðni hitta göngugesti kl. 11 við Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu en reikna má með að gangan um miðborgina taki um tvær klukkustundir. Börn eru velkomin því gangan er farin í samstarfi við Ferðafélag barnanna.

Helgi Gunnlaugsson og Guðni Th. Jóhannesson
Helgi Gunnlaugsson og Guðni Th. Jóhannesson