Skip to main content
22. maí 2017

Frumkvöðlar framtíðarinnar verðlaunaðir

""

Á fjórða tug nemenda í 5.-7. bekk í grunnskólum víða af landinu tók þátt í úrslitakeppni Nýsköpunarkeppni grunnskólanna sem fram fór um helgina, en Háskóli Íslands er einn af aðalbakhjörlum keppninnar. 

Bæði úrslitakeppnin og lokahóf keppninnar fóru fram í Háskólanum í Reykjavík. Þar kynntu þátttakendur alls 25 hugmyndir sem valdar höfðu verið úr hópi 1100 hugmynda frá 34 skólum víðs vegar á landinu. Við mat á hugmyndum var m.a. horft til hagnýtingar, nýnæmi og markaðshæfi hugmyndanna.

Veitt voru verðlaun fyrir efstu þrjú sætin og komu þau í hlut 13 nemenda sem kynntu jafn ólíkar ólíkar uppfinningar og klemmusnaga, hitaskynjara fyrir krana, ferðabursta, barnabjargara, Applocker, skartgripamöppu og vettlingaþurrkugrind, svo dæmi sé tekið. Auk þess var sérstakur Tæknibikar Pauls Jóhannssonar veittur fyrir framúrskarandi sköpunargáfu og eljusemi í vinnusmiðju keppninnar og 

Forritunarverðlaun NKG og Kóðans 1.0 fyrir framúrskarandi hugmynd þar sem forritun kemur við sögu. Auk þess hlaut Þórdís Sævarsdóttir í Dalskóla, verðlaunin fyrir framúrskarandi framlag til eflingar nýsköpunarmenntunar á Íslandi og fær því nafnbótina „ Nýsköpunarkennari grunnskólanna árið 2017“.

Háskóli Íslands er meðal helstu bakhjarla keppninna. Skólinn styður hana með fjárframlagi auk þess sem starfsfólk skólans kemur að leiðsögn í vinnusmiðjum sem haldnar eru úrslitahelgina. Þá veitti skólinn tíu þátttakendum sem komust í úrslit Nýsköpunarkeppninnar gjafabréf í Háskóla unga fólksins sumarið 2017 en skólinn fer fram 12.-16. júní í Háskóla Íslands. Það var Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar við Háskóla Íslands, sem afhenti þátttakendum gjafabréfin.

Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda (NKG) er keppni í nýsköpun fyrir 5. – 7. bekk grunnskólanna. Hún var haldin í fyrsta skipti árið 1991 en þetta var í 27. skipti sem grunnskólanemar kynntu frumlegar hugmyndir sínar.

Nánari upplýsingar um verðlaunahafa, yfirlit hugmynda og myndir má sjá á heimasíðu keppninnar.

Þátttakendur í úrslitakeppni Nýsköpunarkeppni grunnskólanna ásamt mennta- og menningarmálaráðherra, aðstandendum keppninnar og fulltrúum bakhjarla.
Það var Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar við Háskóla Íslands, sem afhenti þátttakendum gjafabréfin.