Skip to main content

Fjölsóttur fundur um gæðamál háskóla

17. Mar 2017

Fjölmenni sótti fund Gæðaráðs íslenskra háskóla í Hátíðasal Háskóla Íslands í vikunni þar sem kynnt var handbók um aðra rammaáætlun um eflingu gæða í íslenskum háskólum. 

Ráðið, sem er skipað sex erlendum sérfræðginum, var sett á laggirnar árið 2010 og eins og nafnið bendir til er hlutverk þess að taka út gæði náms í íslenskum háskólum. Ráðið hefur sett fram rammaáætlun um eflingu gæða á sviði æðri menntunar á Íslandi (e. Icelandic Quality Enhancement Framework) og birt í sérstakri handbók. Kveður rammaáætlun á um að á fimm ára tímabili skuli fara fram kerfisbundið mat á gæðum háskólastarfs á Íslandi. Felst matið annars vegar í innra mati háskólanna á faglegri starfsemi sinni og hins vegar í ytra mati Gæðaráðs á háskólunum.

Samhliða Gæðaráðinu starfar ráðgjafarnefnd sem er skipuð fulltrúum háskólanna, stúdenta, Rannís og mennta- og menningarmálaráðuneytis og er tengiliður á milli ráðsins og skólanna. 

Fundinn í Hátíðasal sóttu fulltrúar háskóla á Íslandi, Rannís, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og meðlimir í Gæðaráðinu. Fundurinn hófst á ávarpi Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, sem hann fór yfir sýn rektora á aðra rammaáætlun um eflingu gæða í íslenskum háskólum. Í kjölfarið tók Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, við með erindið „Birting Handbókar um aðra rammaáætlun um gæði í íslenskum háskólum“ og í framhaldinu fór Norman Sharp, formaður Gæðaráðs íslenskra háskóla, yfir nýnæmi í handbókinni.

David Erik Mollberg og Sunna Mjöll Sverrisdóttir frá Landssamtökum íslenskra stúdenta fjölluðu einnig um sýn stúdenta á rammaáætlunina  og Magnús Diðrik Baldursson, formaður ráðgjafanefndar Gæðaráðs og skrifstofustjóri rektorsskrifstofu Háskóla Íslands, var síðastur á mælendaskrá en hann ræddi þær áskoranir sem felast í rammaáætluninni. Fundinum lauk svo á pallborðsumræðum með þátttöku meðlima í Gæðaráði  íslenskra háskóla.

Hér má nálgast upptöku frá ráðstefnunni. 

Frá fundi Gæðaráðs íslenskra háskóla
Jón Atli Benediktsson
Frá fundi Gæðaráðs íslenskra háskóla
Ásta Magnúsdóttir
Norman Sharp