Skip to main content
1. nóvember 2016

Fjölnota borðbúnaði úr Hámu á að skila eftir notkun

""

Fjölnota plastglös sem Háma keypti í byrjun sumars eru nánast öll horfin og af 56 postulínsskálum sem Háma keypti fyrir salatbarinn fyrir þremur vikum eru aðeins 25 skálar eftir. Afföll af öllum fjölnota borðbúnaði eru mikil í Hámu en hafa sjaldan verið jafnör og nú. 

Svo virðist sem gestir Hámu taki annaðhvort með sér borðbúnaðinn heim, fari með hann á skrifstofur sínar eða hreinlega hendi honum í ruslið. 

Samkvæmt upplýsingum frá Rebekku Sigurðardóttur hjá Félagsstofnun stúdenta (FS) er þetta m.a. ástæðan fyrir því að jafn mikið er um einnota og óumhverfisvænan borðbúnað í Hámu og raun ber vitni. Kostnaðarsamt er að bæta sífellt við fleiri fjölnota ílátum og búnaði, en það hefur m.a. áhrif á verð á vörum í Hámu. FS hyggst engu að síður að halda áfram að bjóða upp á fjölnota borðbúnað enda vinnur stofnunin með Háskólanum að því að draga úr úrgangi á háskólasvæðinu. 

Háskóli Íslands hvetur bæði starfsfólk og stúdenta til þess að passa upp á fjölnota borðbúnað Hámu og benda samstarfsfólki og samnemendum á mikilvægi þess að skila honum eftir notkun. Einnig er upplagt að koma með nestisbox og fjölnota mál að heiman ætli fólk að taka matinn eða drykkina með sér út fyrir svæði Hámu. 

 

Frá Hámu
Frá Hámu