Skip to main content
16. apríl 2024

Fjölbreytt dagskrá á háskólaþingi 17. apríl

Fjölbreytt dagskrá á háskólaþingi 17. apríl - á vefsíðu Háskóla Íslands

Áhrif gervigreindar á nám og kennslu, örnám, starfræn umbylting þjónustu og kosning nýrra fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð er meðal þess sem er á dagskrá 33. háskólaþings Háskóla Íslands fer fram í Hátíðasal skólans miðvikudaginn 17. apríl kl. 13.00-15.30. Þingið verður sent út í beinu streymi.

Seturétt á háskólaþingi eiga um hundrað manns en þingið er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fram fer umræða um þróun og eflingu Háskóla Íslands. Þingið sækja helstu stjórnendur skólans, kjörnir fulltrúar fræðasviða, fulltrúar helstu stofnana háskólans og samstarfsstofnana hans, kennarafélaga og stúdenta auk fulltrúa starfsmanna stjórnsýslu og úr háskólaráði. 

Að þessu sinni eru fimm mál á dagskrá háskólaþings. Í upphafi reifar rektor þau mál sem eru efst á baugi innan Háskóla Íslands en að því loknu fer fram kjör þriggja fulltrúa og þriggja varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1. júlí 2024 til 30. júní 2026. Átta eru í framboði og má því búast við spennandi kosningu. 

Þriðja mál á dagskrá þingsins ber yfirskriftina „Örnam: Stutt, sveigjanlegt, hagnýtt“ og munu Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála, og Halla Jónsdóttir endurmenntunarstjóri, gera grein fyrir því. Næst er til umfjöllunar notendamiðuð þjónusta og stafræn umbylting og mun Sæunn Stefánsdóttir þróunarstjóri fylgja málinu úr hlaði. 

Eftir kaffihlé er komið að fimmta og síðasta málinu á dagskrá háskólaþings og er það umfjöllun um áhrif gervigreindar á nám og kennslu. Fluttar verða fjórar stuttar framsögur og málið síðan rætt. Framsögurnar flytja Hafsteinn Einarsson, lektor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, verkefnisstjóri á kennslusviði, Magnús Þór Torfason, dósent við Viðskiptafræðideild, og María Rós Kaldalóns, nemandi í hugbúnaðarverkfræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið. Í lok þingsins verður tilkynnt um niðurstöðu kosningar fulltrúa háskólasamfélagins í háskólaráð. 

Frá háskólaþingi