Skip to main content
14. nóvember 2015

Drekarnir báru sigur úr býtum í LEGO-hönnunarkeppni

Liðið Drekarnir úr Vopnafjarðarskóla sigraði í tækni- og hönnunarkeppni grunnskólanemenda, FIRST LEGO League (FLL), sem haldin var í Háskólabíói í dag. Liðið vann sér um leið þátttökurétt í alþjóðlegri keppni FIRST LEGO League á næsta ári. 

Þetta var í ellefta sinn sem keppnin var haldin en markmið hennar er að vekja áhuga hjá ungu fólki á því að skara fram úr á sviði tækni og vísinda. Í keppninni var boðið upp á spennandi verkefni sem efla færni í vísindum, verkfræði og tækni, örva nýsköpun og byggja um leið upp hæfileika eins og sjálfstraust og samskipta- og forystuhæfni. 

Alls voru 20 lið úr grunnskólum víðs vegar á landinu skráð til leiks að þessu sinni og hafa þau aldrei verið fleiri. Hvert lið var skipað allt að tíu manns á aldrinum 10-16 ára og var keppninni skipt í fjóra hluta. Keppendur áttu að forrita vélmenni úr tölvustýrðu LEGO-i til að leysa tiltekna þraut sem tengist þema keppninnar sem að þessu sinni var sorp. Þá áttu keppendur að gera vísindalega rannsókn á ákveðnu efni sem einnig er tengt þemanu. Enn fremur þurftu þau að gera grein fyrir því hvernig þau forrituðu vélmennið sitt og þá horfði dómnefnd einnig til liðsheildar. Veitt voru verðlaun fyrir alla þessa flokka auk verðlauna fyrir sigur í heildarkeppninni.

Þegar upp var staðið og stigin höfðu verið tekin saman reyndust Drekarnir sigurvegar í keppninni en liðið er skipað átta nemendum úr Vopnafjarðarskóla. Þetta var í fyrsta sinn sem skólinn sendir lið til leiks og voru liðsmenn að vonum himinlifandi með árangurinn. 

Lið af landsbyggðinni sópuðu til sín verðlaunum í einstökum flokkum ein þau skiptust sem hér segir:

Besta lausn í hönnun og forritun vélmennis: Trashmasters úr Grunnskóla Reyðarfjarðar

Besta rannsóknaverkefnið:  LWA úr Naustaskóla á Akureyri

Vélmennakapphlaup: LegoFásk úr Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar

Besta liðsheildin: Obi Wan Legobi úr Flúðaskóla

Allir þátttakendur í keppninni, um 200 talsins, fengu enn fremur FLL-medalíu í viðurkenningarskyni.

Háskóli Íslands heldur utan um keppnina en helsti bakhjarl hennar er Nýherji.

Upplýsingar um keppnina má nálgast á heimasíðu hennar  og Facebook-síðu keppninnar

Nemendur í liðinu Drekunum frá Vopnafjarðarskóla
LegoFásk úr Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar
LWA úr Naustaskóla á Akureyri
Obi Wan Legobi úr Flúðaskóla
Tashmasters úr Grunnskóla Reyðarfjarðar
Allir þátttakendur í LEGO-hönnunarkeppninni
Nemendur í liðinu Drekunum frá Vopnafjarðarskóla
LegoFásk úr Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar
LWA úr Naustaskóla á Akureyri
Obi Wan Legobi úr Flúðaskóla
Tashmasters úr Grunnskóla Reyðarfjarðar
Allir þátttakendur í LEGO-hönnunarkeppninni