Skip to main content
28. október 2016

Doktorsvörn: Yfirnáttúrulegir draumar í Íslendingasögum

""

Christopher Crocker hefur varið doktorsritgerð sína, Situating the Dream: Paranormal Dreams in the Íslendingasögur (Staðsetning draumsins: Yfirnáttúrulegir draumar í Íslendingasögum), við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Doktorsvörnin fór fram í Öskju þann 7. október síðastliðinn og það var Gunnþórunn Guðmundsdóttir, forseti Íslensku- og menningardeildar, sem stjórnaði athöfninni.

Andmælendur við vörnina voru Torfi Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands, og Stephen Mitchell, prófessor í norrænu og þjóðfræðum (Scandinavian and Folklore) við Harvard-háskóla (Harvard University). Aðalleiðbeinandi Christophers í námi hans við Háskóla Íslands var Ármann Jakobsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild, en í doktorsnefnd voru auk hans Guðrún Nordal, prófessor og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í Reykjavík, og Tarrin Wills, dósent í norrænum fræðum við Aberdeen-háskóla (Centre for Scandinavian Studies, University of Aberdeen).

Um efni ritgerðarinnar

Þessi ritgerð fjallar um drauma og hvernig athöfninni að dreyma er lýst í Íslendingasögum. Eins og ýmsar miðaldaheimildir gera sögurnar draumum hátt undir höfði sem mikilvægum þætti mannlegrar reynslu, aðgreindum en þó rækilega tengdum reynslu vökunnar. Þannig má líta á þá sem vitnisburð um virk eða gegndræp mörk milli draumlífsins og venjulegrar reynslu vökulífsins þannig að draumurinn er þá í grundvallaratriðum yfirnáttúruleg reynsla.

Hinar rituðu Íslendingasögur geta ekki lengur talist heimild um raunveruleika 9., 10. og 11. aldar á Íslandi líkt og einu sinni var. Fremur má telja þær misáreiðanlegar heimildir um sagnamenningu 13., 14. og jafnvel 15. aldar, ritunartíma sinn. Þeirra staður er sjálft tungumálið sem endurspeglar ef til vill ákveðna þætti úr fortíðinni, lifaðan raunveruleika sem þó dregur upp mynd af fortíðinni gegnum þokukenndar og ef til vill brenglaðar linsur minnis og hefðar í sameiningu, ásamt viðbótum þeirra sem báru ábyrgð á hinni rituðu varðveittu sögugerð. Þannig má stöðugt efast um fyrri tilraunir til að grafa upp úr þessum textum raunveruleg, innfædd og heiðin viðhorf um gildi drauma þar sem sögurnar og þar með draumar þeirra og lýsingar á dreymandi manneskjum bera vitni ritunartíma sínum.

Með rannsóknum á bókmenntalegum, alþýðlegum og kirkjulegum hefðum um misjafnt vægi drauma eða athafnarinnar að dreyma fyrir atburðum hins vakandi lífs má draga fram viðvarandi en fjölbreyttar hefðir þar sem mikilvæginu er haldið fram allt frá elstu varðveittu ritum og út allar miðaldir. Þar fylgjast að hefðin um hve litlu máli draumar skipti fyrir hið vakandi líf og fyrirvarar sem heimiluðu þeim sem vildu að telja drauma sína þungvæga og ef til vill styrktist þannig hefðin sem leitast var við að afneita. Íslensk bókmenning á miðöldum einkennist þannig af efa og óvissu um gildi drauma en um leið af almennri tilfinningu fyrir virkum og gegndræpum mörkum milli drauma og vökulífs.

„Höfundar“ sagnanna leituðust ekki við að skýra eðli drauma eða draumathöfnina en færðu í staðinn áfram minni og hefðir og hagnýttu sér um leið og þeir bættu við frá eigin brjósti til að bregða birtu á eigin frásögn og sagnfræðaiðkun með þessari í grundvallaratriðum yfirnáttúrulegu mannlegu reynslu.

Um doktorsefnið

Christopher Wilfred Ellis Crocker er fæddur 29. september 1982 í Nýfundnalandi i Kanada. Hann lauk BSc-prófi í stærðfræði frá Memorial University of Newfoundland árið 2005 og MA-prófi í íslenskum bókmenntum frá Manitobaháskóla (University of Manitoba) árið 2011. Hann er nú kennari í íslenskudeild (Department of Icelandic Language and Literature) Manitobaháskóla og í tjáningardeild (Department of Rhetoric, Writing and Communications) við Winnipegháskóla (University of Winnipeg).

Smellið hér til að skoða myndir frá doktorsvörninni.

Christopher Crocker
Christopher Crocker