Skip to main content
19. september 2016

Boðberar íslenskrar menningar að fornu og nýju

""

Á þessu haustmisseri hófu 25 erlendir nýnemar frá tíu löndum meistaranám í miðaldafræðum við Háskóla Íslands. Þeir eru nemendur í námsbrautunum Medieval Icelandic Studies og Viking and Medieval Norse Studies, en að þeirri síðarnefndu standa Háskóli Íslands, Óslóarháskóli, Árósaháskóli, Kaupmannahafnarháskóli og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Námsbrautirnar hafa notið mikilla vinsælda og hafa nemendur t.d. komið frá Brasilíu, Bandaríkjunum, Ísrael, Kína, Kanada, Púertó Ríkó og Þýskalandi.

Haraldur Bernharðsson, dósent við Íslensku- og menningardeild, og einn af umsjónarmönnum námsins, segir styrk námsins felast í því að fjórir norrænir háskólar og Stofnun Árna Magnússonar leggi saman krafta sína. Þannig sé hægt að bjóða upp á öflugt nám sem eigi sér hvergi hliðstæðu. Námsbrautirnar eru ætlaðar erlendum nemendum sem vilja öðlast traustan grunn í forníslensku, norrænni bókmenntasögu og miðaldasögu Íslands og Norðurlanda.

Á hverju ári sækjast á bilinu 80–100 erlendir nemendur eftir því að leggja stund á þetta nám en ekki er hægt að taka við þeim öllum. Stærstu hóparnir koma frá Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandseyjum en nemendur hafa líka komið lengra að, t.d. frá Ástralíu, Japan og Kólumbíu. Haraldur segir að nemendur sem útskrifist héðan eftir nám í miðaldafræðum komi aftur og aftur til Íslands, haldi áfram að vinna við norræn fræði erlendis, rækti tengslin og breiði út íslenska menningu að fornu og nýju út um allan heim. 

Auk Haralds eru Torfi H. Tulinius og Viðar Pálsson fastir kennarar við námsbrautirnar.

Hér er hægt að hlusta á viðtal við Harald Bernharðsson.

Nýnemahópur þessa árs í miðaldafræðum fyrir framan Árnagarð.